Stórkostleg spilamennska Birgis Leifs

Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson.

Kylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson lék nánast óaðfinnanlega á öðrum hring á Opna Cordon-mótinu í Frakklandi sem er hluti af Áskorendamótaröð Evrópu. Að loknum tveimur hringjum af þremur er Birgir Leifur með góða forystu.

Eins og fram kom á mbl.is fyrr í dag skilaði Birgir inn mögnuðu skori á fyrsta hring þegar hann spilaði á 63 höggum eða sjö höggum undir pari, og hann slakaði svo sannarlega ekki á þegar kom að öðrum hring.

Birgir Leifur lék afbragðsvel, hann byrjaði á seinni níu holunum og fékk þar þrjá fugla. Hann fékk svo þrjá fugla á fyrri níu holunum líka, en á síðustu holunni tapaði hann höggi í fyrsta sinn þegar hann fékk skolla. Hann fékk því alls sex fugla, ellefu pör og einn skolla og spilaði samanlagt á 65 höggum, fimm höggum undir pari, og er á 12 höggum undir pari samtals.

Hann er sem stendur með fjögurra högga forystu á næstu menn, en lokahringurinn er leikinn á morgun.

Birgir er í 77. sæti á stigalista mótaraðarinnar fyrir mótið. Takist honum vel upp og verði á meðal efstu manna þá ætti hann að hækka töluvert á listanum. Fimmtán efstu kylfingar listans í lok árs fá keppnisrétt á Evrópumótaröðinni á næsta ári. 45 efstu frá keppnisrétt í lokamótinu sem fram fer í Oman. 

mbl.is