Ólafía tekur risastökk

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. AFP

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir náði í dag sínum langbesta árangri á LPGA-mótaröðinni í golfi eins og mbl.is hefur ítarlega greint frá, en lokastaðan er nú ljós á Indy Women-mótinu.

Ólafía lauk þar leik á 13 höggum undir pari eftir að hafa fengið örn á lokaholunni, en þegar hún kom í hús var hún í þriðja sæti. Nú hafa allir kylfingar lokið leik og nú er ljóst að hún hafnar í fjórða sætinu. Lexi Thompson sigraði á 19 höggum undir pari.

Ólafía var fyrir mótið í 101. sæti peningalistans, en 100 efstu kylfingarnir halda fullum keppnisrétti á næsta tímabili á LPGA-mótaröðinni. Eftir þessi úrslit í dag mun Ólafía hins vegar taka risastökk upp listann og verða í 79. sæti.

Næsta mót Ólafíu er strax um næstu helgi, en hún verður þá með á sínu þriðja risamóti á keppnistímabilinu þegar hún verður í eldlínunni á Evian-meistaramótinu í Frakklandi. Þess má geta að fyrir þetta ár hafði enginn Íslendingur tekið þátt á risamóti í golfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert