Tiger í vandræðum í vindinum

Tiger Woods á högg upp úr glompu þriðja hringnum á ...
Tiger Woods á högg upp úr glompu þriðja hringnum á Bahamaeyjum. AFP

Tiger Woods, næstsigursælasti kylfingur allra tíma, náði ekki að fylgja á eftir eftirtektarverðum árangri sínum á þriðja hring Hero World Challenge mótsins í golfi þar sem hann lék á þremur höggum yfir pari, á 75 höggum.

Eftir tvo góða hringi upp á 69 og 68 högg, lenti Woods í vandræðum á þriðja hringnum, en það blés nokkuð á Bahamaeyjum, og tapaði hann fjórum höggum á sjö holna kafla áður en hann fékk einn skolla til viðbótar á 10. holu. Hann lagaði hringinn aftur á móti með fuglum á 14. og 17. holu og er sem stendur á -4 samtals eftir hringina þrjá.

Aðeins fimm kylfingar af 18 náðu að leika á pari eða betur í dag og aðstæður því erfiðar.

Charley Hoffman er efstur á -14, Justin Rose á -9 og Jordan Spieth á -8.

Tiger Woods heldur Hero World Challenge árlega og þar sem einungis bestu kylfingum heims er boðið að taka þátt en mótið er leikið til styrktar Tiger Woods góðgerðasjóðsins (e. Tiger Woods Foundation).

mbl.is