Segist rekinn fyrir að segja formann GA óþolandi

Sturla Höskuldsson.
Sturla Höskuldsson. Ljósmynd/GA

Ósætti virðist vera komið upp innan Golfklúbbs Akureyrar, en golfkennarinn Sturla Höskuldsson hefur látið af störfum.

Það var kylfingur.is sem greindi fyrst frá málinu. Á heimasíðu GA er ekkert sagt hvað býr að baki og er honum óskað velfarnaðar í framtíðinni, en Sturla tjáir sig sjálfur um málið á Facebook-síðu sinni.

Stjórn Golfklúbbs Akureyrar hefur í dag, ákveðið að segja mér upp störfum, strax, frá og með deginum í dag. Engar skýringar fylgdu uppsögninni en ég tel víst að það sé fyrir þær sakir að hafa sagt að formaðurinn væri óþolandi að vinna með og að ég vildi að kosinn yrði nýr formaður að komandi aðalfundi.

Aðalfundurinn verður haldin í byrjun janúar og verður mjög áhugavert að sjá hvað fer fram þar, þegar ný stjórn tekir við. Ég vonast innilega eftir því að geta þá haldið áfram starfi mínu hjá GA,“ skrifar Sturla og fær mikinn meðbyr í athugasemdum við færsluna.

Hann hefur starfað hjá GA síðastliðin þrjú ár en áður var hann golfkennari í golfklúbbi í Törreby í Svíþjóð.

mbl.is