Valdís áfram en Ólafía úr leik

Valdís Þóra Jónsdóttir, til vinstri, er komin áfram í Ástralíu.
Valdís Þóra Jónsdóttir, til vinstri, er komin áfram í Ástralíu. Ljósmynd/LPGA

Atvinnukylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir komst í nótt örugglega í gegnum niðurskurðinn á Opna ástr­alska mótinu í Adelai­de í Ástralíu, sem er hluti af LPGA-mótaröðinni, þeirri sterk­ustu í heimi. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er hins vegar úr leik.

Hringurinn í nótt hjá Valdísi var nokkuð skrautlegur; hún fékk einn örn, fimm fugla, þrjá skolla, tvo skramba og aðeins sex pör og lék hún hringinn á 72 höggum eða á parinu, rétt eins og fyrsta hringinn. Það skilaði henni í 35.-43. sæti, en efstu 80 kylfingarnir, sem léku á 3 höggum yfir pari eða betur fara í gegnum niðurskurðinn.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir náði sér ekki á strik í nótt; lék á 77 höggum eða 5 höggum yfir pari, en í gær lék hún á tveimur höggum yfir pari. Hún er því samtals 7 höggum yfir parinu, í 104.-111. sæti, og er hún því úr leik.

Jin Young Ko frá Suður-Kóreu er með forystu á mótinu en hún er á 10 höggum undir pari. Ema Talley frá Bandaríkjunum kemur næst á 7 höggum undir pari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert