Garcia sló fimm sinnum í vatnið

Sergio Garcia er sá fyrsti frá árinu 1980 sem slær …
Sergio Garcia er sá fyrsti frá árinu 1980 sem slær 13 högg á sömu holu á Masters. AFP

Spánverjinn Sergio Garcia kastaði með hreint ótrúlegum hætti frá sér allri von um að verja titilinn á Masters-mótinu í golfi í Bandaríkjunum í dag.

Garcia sló boltann alls fimm sinnum í vatn á 15. brautinni einni, á Augusta-vellinum. Lýsandi BBC líkti endurteknum tilraunum hans við kvikmyndina Groundhog Day. Spánverjinn lék holuna alls á 13 höggum eða heilum átta höggum yfir pari.

Garcia er samtals á 10 höggum yfir pari í dag, eftir 15 holur, en Charley Hoffman er efstur sem stendur á -4 höggum eftir 14 holur.

Garcia er sá fyrsti frá árinu 1980 sem slær 13 högg á sömu brautinni á Masters. Spánverjinn á eftir sem áður góðar minningar frá mótinu í fyrra þegar hann vann en dóttir hans, sem fæddist á þessu ári, heitir Azalea eftir 13. braut Augusta-vallarins. Fimmtánda brautin heitir Firethorn og verður líklega ekki notuð við nafngiftir ef fjölskyldan stækkar enn frekar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert