Garcia vann á Valderrama-mótinu í þriðja sinn

Sergio Garcia.
Sergio Garcia. AFP

Spánverjinn Sergio Garcia hrósaði sigri á Valderrama Masters-mótinu í golfi sem lauk á Spáni í dag.

Veður setti strik í reikninginn á mótinu og var ákveðið að spila þrjá hringi í stað fjögurra. Garcia, sem var gestgjafi mótsins og hrósaði sigri á því í fyrra, lék á samtals 201 höggi eða 12 höggum undir pari en hann lék lokahringinn í dag á tveimur höggum undir pari.

Írinn Shane Lowry varð annar á 205 höggum og í þriðja sætinu hafnaði Finninn Mikko Korhonen sem lék á samtals 207 höggum.

„Að hafa tekist að vinna mótið þrisvar sinnum hér í Valderrama er draumi líkast,“ sagði Garcia en hann sigraði á þessu móti árið 2011 og í fyrra.

„Þetta er svo erfitt. Völlurinn er mikil áskorun og fyrir mig að hafa spilað þrjá hringi undir pari við þær aðstæður sem við spiluðum í alla dagana er ég mjög stoltur,“ sagði Garcia.

Birgir Leifur Hafþórsson var á meðal keppenda á mótinu en var einu höggi frá því að komast í gegnum niðurskurðinn eftir tvo hringi.

Lokastaðan á mótinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert