Haraldur með örn og í frábærri stöðu

Haraldur Franklín Magnús á úrtökumótinu í Almería.
Haraldur Franklín Magnús á úrtökumótinu í Almería.

Haraldur Franklín Magnús átti mjög góðan hring í dag á öðru stigi úrtökumótanna fyrir Evrópumótaröðina í golfi en hann leikur á Desert Springs-vellinum í Almería á Spáni og þar er þriðji hringurinn spilaður í dag.

Haraldur lék sinn besta hring á mótinu í dag eða á 68 höggum, fjórum undir pari, eftir að hafa leikið á 69 höggum í gær og 72 höggum á fyrsta degi. Hann fékk þrjá fugla og einn skolla í dag og svo glæsilegan örn á 18. og síðustu holunni er hann lék par fjögur holuna á tveimur höggum.

Á morgun hefst fjórði og síðasti dagur mótsins en um það bil 20 efstu komast áfram á lokastig úrtökumótanna. Haraldur er sem stendur í 11.-18. sæti og því í frábærum málum en hann er alls sjö höggum undir pari. Efstur er Deyen Lawson frá Ástralíu en hann er á 14 höggum undir pari alls og hefur ekki hafið keppni í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert