Valdís keppir á LPGA-móti

Valdís Þóra Jónsdóttir kylfingur
Valdís Þóra Jónsdóttir kylfingur mbl.is/Hari

Valdís Þóra Jónsdóttir, úr Leyni á Akranesi, mun keppa á móti á LPGA-mótaröðinni bandarísku í vikunni og fer af stað aðfaranótt fimmtudagsins en mótið er haldið í Ástralíu. 

Valdís öðlaðist á dögunum keppnisrétt á áströlsku mótaröðinni með góðri spilamennsku í úrtökumóti. Góður árangur í mótinu gæti mögulega opnað fleiri dyr að LPGA-mótaröðinni. 

Vic Open mótið sem haldið er samstarfsverkefni hjá LPGA og áströlsku mótaröðinni og því er Valdís með keppnisrétt á mótinu. Mótið er haldið í Victoria og fer fram 7. - 10. febrúar.

Valdís mun spila á fleiri mótum í Ástralíu síðar í mánuðinum. 

Valdís á rástíma klukkan 13:40 að staðartíma á fimmtudag og mun hefja leik á 10. teig. Þar sem Ísland er ellefu tímum á eftir Viktoríufylki er klukkan þá aðeins 02.40 að morgni hérlendis þegar Valdís byrjar að slá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert