Fleetwood og McIlroy efstir

Rory McIlroy
Rory McIlroy AFP

Englendingurinn Tommy Fleetwood og Norður-Írinn Rory McIlroy eru efstir þegar Players Championship er hálfnað á TPC Sawgrass vellinum á Flórída. Þeir eru á 12 höggum undir pari og hafa þriggja högga forskot. 

Tommy Fleetwood á 11. holunni í dag.
Tommy Fleetwood á 11. holunni í dag. AFP

Fleetwood hefur nánast verið efstur frá því hann fór af stað í gærmorgun en hann hefur leikið á 65 og 67 en dæmið snérist við hjá McIlroy sem lék á 67 í gær og 65 í dag.  

Þriðji Bretinn virðist til alls líklegur og það er Ian Poulter sem er þekktur stuðkarl þegar hann á möguleika á sigri. Poulter var á 66 í dag og á 69 í gær. 

Hinn 48 ára gamli Jim Furyk er einnig á níu undir pari eins og Poulter. Furyk átti magnaðan hring og lék á 64 höggum sem er besti hringurinn til þessa í mótinu. Ótrúleg frammistaða hjá manni á þessum aldri sem þar að auki er ekki högglangur. Furyk býr ekki langt frá vellinum og þekkir hverja þúfu og hvern hól á TPC Sawgrass. 

Ian Poulter var í stuði í dag.
Ian Poulter var í stuði í dag. AFP

Abraham Ancer frá Mexíkó og Bandaríkjamaðurinn Brian Harman eru einnig á níu undir pari. 

Nokkrir sterkir kylfingar eru líklegri til að blanda sér í baráttuna um helgina eins og Ástralinn Jason Day sem er á 8 undir pari, efsti kylfingur heimlistans Dustin Johnson frá Bandaríkjunum sem er á 7 undir pari og Spánverjinn Jon Rahm er einnig á 7 undir. 

Þá eru Bandaríkjamennirnir Patrick Reed og Keegan Bradley á 6 undir pari. Báðir kylfingar sem unnið hafa risamót. 

Jim Furyk átti magnaðan dag og lék á 64.
Jim Furyk átti magnaðan dag og lék á 64. AFP
mbl.is