Tiger staðfestir viðræður við nýja úrvalsdeild í golfi

Tiger Woods ræðir við fréttamenn í Pacific Palisades í Kaliforníu.
Tiger Woods ræðir við fréttamenn í Pacific Palisades í Kaliforníu. AFP

Tiger Woods hefur staðfest að forráðamenn nýrrar golfmótaraðar sem á að vera sú sterkasta í heiminum hafi rætt við hann um að leika í henni frá og með árinu 2022.

Um er að ræða „Úrvalsdeildina í golfi“, eða Premier Golf League (PGL) sem samtökin World Golf Group, með höfuðstöðvar á Bretlandseyjum, skýrðu frá í síðasta mánuði og vonast er eftir að hefji göngu sína árið 2022. Þar er stefnt að því að fá 48 bestu kylfinga heims til að taka þátt í 18 mótum á ári þar sem verðlaunafé næmi 10 milljónum dollara á hverju móti fyrir sig.

„Hafa þeir haft beint samband við mig? Já, og mitt lið veit af þessu og við höfum verið að kynna okkur þetta í smáatriðum til að reyna að átta okkur á umfanginu, rétt eins og allir aðrir. Við höfum áður verið í þessari stöðu, eins og þegar heimsmótinu í golfi (World Golf Championships) og öðrum viðburðum hefur verið ýtt úr vör,“ sagði Woods við fréttamenn í Pacific Palisades í Kaliforníu í gær en þar keppir hann í þessari viku á Genesis-boðsmótinu í PGA-mótaröðinni og reynir að vinna mót í þeirri mótaröð í 83. skipti á ferlinum.

„Það er enn eitt og annað sem er ekki á hreinu og við eigum eftir að átta okkur á hvort þetta sé raunhæft, en við skoðum það. Ég held að allir leitist eftir því að reyna að fá bestu kylfinga heims til að vera oftar saman á mótum, þannig að þetta er eðlileg þróun, hvort sem af þessu verður eða ekki. Svona hugmyndir munu áfram koma fram,“ sagði Woods.

Forráðamenn PGL hafa sagt að þeir vilji vinna með hinum stóru mótaröðunum, PGA í Bandaríkjunum og Evrópumótaröðinni, en viðbrögð þeirra við væntanlegum keppinauti hafa verið frekar neikvæð til þessa, að sögn Reuters.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert