Áhorfendur eru hluti af Rydernum

Lee Westwood í Ryder-bikarnum árið 2012.
Lee Westwood í Ryder-bikarnum árið 2012. Mike Ehrmann

Englendingurinn Lee Westwood hefur bæst í hóp þeirra sem eru á móti því að keppt sé um Ryder-bikarinn án áhorfenda eins og gæti gerst í haust. 

Lið Bandaríkjanna og Evrópu eiga að mætast í Bandaríkjunum 25.-27. september á Whistling Straits-vellinum í Wisconsin-ríki. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort áhorfendur verði leyfðir eða ekki. 

Westwood hefur tíu sinnum keppt fyrir Evrópu í Rydernum og þekkir því keppnina betur en margir aðrir. Fyrir tveimur árum var hann í liðsstjórateyminu. 

„Keppnin verður aldrei eins og vanalega í ljósi þess sem gengið hefur á [vegna kórónuveirunnar]. En ef eitthvert golfmót þarf á áhorfendum að halda þá er það þessi keppni. Í mínum huga eru áhorfendurnir órjúfanlegur hluti af keppninni,“ segir Westwood í viðtali við Golf Channel en Rory McIltoy og Brooks Koepka hafa viðrað svipaðar skoðanir. 

Mikil stemning myndast í keppninni um Ryder-bikarinn og áhorfendur leyfa sér að vera háværari og fyrirferðarmeiri en á hefðbundnum golfmótum og hefur langflestum keppendunum líkað það vel. 

Westwood hefur upplifað að keppninni um Ryder-bikarinn sé frestað um ár. Gerðist það þegar keppnin átti að fara fram í september 2001 en var frestað eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september sama ár. 

Fór keppnin fram á Belfry í september 2002. Sú staða var nokkuð sérstök því liðin sem höfðu verið valin héldu sér og voru engar breytingar gerðar. Var það talið sanngjarnt gagnvart þeim sem höfðu unnið sig inn í liðin. Var Westwood einn þeirra sem virtist ætla að fara illa út úr frestuninni því hann lék mun verr árið 2002 en 2001. Hann náði hins vegar að hrista af sér slenið með hjálp Sergio Garcia og átti sinn þátt í fremur óvæntum sigri Evrópu 2002. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert