Hagnaðurinn átjánfaldaðist milli ára

Jaðarsvöllur á Akureyri.
Jaðarsvöllur á Akureyri. Ljósmynd/Golfklúbbur Akureyrar

Golfklúbbur Akureyrar hagnaðist um 18,5 milljónir króna á rekstrarárinu sem lauk 31. október. Hagnaður síðasta rekstrarárs var um ein milljón króna og því átjánfaldaðist hagnaður klúbbsins milli ára.

Þetta kemur fram í ársreikningi klúbbsins, sem lagður hefur verið fram, og Akureyri.net greinir frá.

„Við erum afar stolt af okkar miklu uppbyggingu á starfsemi GA síðustu ár. Það er ljóst að sú erfiðisvinna hefur skilað sér í aukinni ánægju meðlima, ferðamönnum og bættum grunni til betri reksturs,“ sagði Steindór Kristinn Ragnarsson, framkvæmdastjóri GA, á heimasíðu klúbbsins.

Notkun á Jaðarsvelli jókst um 25 prósent á milli ára og kemur fram á heimasíðu GA að golfsumarið hafi farið vel fram og innan settra reglna þrátt fyrir takmarkanir á samkomuhaldi vegna kórónuveirufaraldursins.

Er aukningin á notkun vallarins rakin að hluta til faraldursins þar sem Íslendingar ferðuðust meira innanlands í stað þess að ferðast erlendis í sumar.

mbl.is