Gamlar kempur slógu upphafshöggin

Lee Elder, Gary Player og Jack Nicklaus tilbúnir til að …
Lee Elder, Gary Player og Jack Nicklaus tilbúnir til að slá fyrstu höggin á The Masters í dag. AFP

Þrír frægir kylfingar á níræðisaldri slógu upphafshöggin á Mastersgolfmótinu sem hófst í dag á Augusta National-vellinum í Georgíu í Bandaríkjunum.

Lee Elder, sem er 86 ára gamall, keppti fyrstur blökkumanna á Masters árið 1975 og hann fékk líflátshótanir vegna þátttöku sinnar þar.

„Að vera boðin þátttaka á Masters og standa á fyrsta teig var draumi líkast og að þetta skyldi eiga sér stað árið 1975 er einn af hápunktunum á mínum ferli og í mínu lífi," sagði Elder við fréttamenn á Augusta í dag.

Með honum voru tveir fyrrverandi sigurvegarar á Masters, Gary Player frá Suður-Afríku og Jack Nicklaus frá Bandaríkjunum. Elder sló ekki sjálfur í dag en mætti á teig með félögum sínum. Player sló fyrsta höggið en hann er 85 ára gamall og vann Masters árin 1961, 1974 og 1978.

Nicklaus, eða Gullbjörninn eins og hann var jafnan kallaður, er yngstur þremenninganna, 81 árs að aldri, en hann vann Masters sex sinnum á árunum 1963 til 1986 og er talinn einhver albesti kylfingur sögunnar. 

mbl.is