Sigurvegari Opna breska yfir til LIV-mótaraðarinnar

Cameron Smith.
Cameron Smith. AFP/Sam Greenwood

Ástralski kylfingurinn Cameron Smith, sigurvegari Opna breska meistaramótsins í golfi fyrr í sumar, hefur ákveðið að segja skilið við PGA-mótaröðina og taka þátt í hinni umdeild LIV-mótaröð.

Smith, sem er í öðru sæti á heimslistanum, vann sitt fyrsta risamót í júlí síðastliðnum þegar hann reyndist hlutskarpastur á Opna breska á Gamla vellinum í St. Andrews í Skotlandi.

Í kjölfarið var hann spurður út í framtíð sína en vildi þá engu svara.

Í samtali við Golf Digest staðfesti Smith að hann væri búinn að færa sig yfir til LIV-mótaraðarinnar, sem er fjármögnuð af sádi-arabískum yfirvöldum.

Sagði Smith að þær háu fjárhæðir sem honum bauðst hafa átt sinn þátt í ákvörðuninni.

„Peningar spiluðu rullu í ákvörðuninni, ég ætla ekki að hunsa það eða halda því fram að þeir hafi ekki átt hlut að máli.

Þetta var augljóslega ákvörðun sem var viðskiptalegs eðlis að einu leyti og tilboð sem ég gat ekki litið framhjá.“

mbl.is