Stella: Ekki búin að fá sjónina aftur

Stella Sigurðardóttir (fyrir miðju) ætlar að fylgjast með landsliðinu af …
Stella Sigurðardóttir (fyrir miðju) ætlar að fylgjast með landsliðinu af áhorfendapöllunum í kvöld kl. 18. mbl.is/Eggert

„Þetta lítur ekkert allt of vel út núna,“ sagði Stella Sigurðardóttir landsliðskona í handknattleik nú í morgun. Hún er enn með skerta sjón eftir að hafa fengið þungt högg í andlitið í vináttulandsleiknum gegn Sviss í gærkvöld.

Stella var flutt upp á sjúkrahús og skoðuð þar en fer til augnlæknis í hádeginu til nánari skoðunar.

„Ég er bara með móðu fyrir vinstra auganu,“ sagði Stella við mbl.is.

„Ég fór upp á spítala í gærkvöld þar sem læknir skoðaði mig og það er einhver blæðing í auganu. Það er alveg rautt og eins og það sé eitthvað fyrir himnunni, en augnbotninn er heill sem mér skilst að sé aðalatriðið,“ sagði Stella. Hún á ekki gott með að meta hve alvarleg meiðslin eru.

„Ég bara veit það ekki. Ég er alla vega ekki búin að fá sjónina aftur en ég veit ekki hvort þetta tekur bara 4-5 daga að jafna sig og verður svo í lagi,“ sagði Stella.

Það var Karin Weigelt, leikmaður Sviss, sem fór með aðra höndina af þunga í andlit Stellu. Hún fékk sína þriðju brottvísun í kjölfarið og þar með rautt spjald.

„Ég hélt að hún hefði fengið beint rautt en sá svo að hún var komin með þrisvar tvær, þvílíkt gróf bara eftir sautján mínútur. En ég sá þetta atvik svo í sjónvarpinu og ég held að þetta hafi nú bara verið óvart. Það verður ekkert stirt á milli okkar,“ sagði Stella létt.

Hún verður ekki með Íslandi í kvöld þegar liðið mætir Sviss öðru sinni í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi kl. 18, og að öllum líkindum ekki heldur í þriðja leiknum á morgun kl. 14.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert