„Við ætluðum ekki að tapa þessum leik“

Patrekur Jóhannesson.
Patrekur Jóhannesson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, var virkilega ánægður með sína menn sem skelltu toppliði FH á Selfossi í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. „Þetta var eins og það gerist best,“ sagði Patrekur í samtali við mbl.is eftir leik.

„Í síðasta leik gegn Gróttu vorum við svolítið í sóló-skotkeppni og ég kallaði eftir því fyrir þennan leik að menn myndu stíga upp. Menn svöruðu því og þetta var bara ein Selfossliðsheild í kvöld. Við erum ekki með Elvar [Örn Jónsson] og ekki með Guðna [Ingvarsson] í kvöld en við vorum með fullt hús af áhorfendum og ég vil þakka þeim fyrst og fremst. Þetta var virkilega sætur og mikilvægur sigur gegn þessu sterka liði FH,“ sagði Patrekur en hann lagðist vel yfir leik liðsins eftir tapið gegn Gróttu.

„Við erum alltaf með sömu rútínu eftir sigurleiki og tapleiki. Við greindum leikinn gegn Gróttu vel og sáum hvað þurfti að laga. Ég held marga og langa fundi og það er bara hluti af þessu. Þessir strákar eru ungir og auðvitað koma vitleysur inn á milli.“

Selfyssingar voru frábærir í fyrri hálfleik en leikurinn jafnaðist í seinni hálfleik og undir lokin var spennan mikil.

„Það var mótbyr í lokin en við stóðumst það. FH-ingarnir voru sterkari á þeim kafla og svo voru einhverjir dómar sem enginn skildi þar sem verið var að henda okkur út af fyrir ekki neitt. Markvarslan var líka fín og ánægjulegt hvað Sölvi [Ólafsson] var „stabíll“. Það kom smá kafli þar sem við vorum að gefa boltann í hendurnar á þeim og þeir voru að skora úr hraðaupphlaupum. Það var stress og spenna á þessum kafla en við náðum vörslum og menn voru til í að taka af skarið. Við ætluðum ekki að tapa þessum leik og við áttum sigurinn virkilega skilið gegn þessu sterka FH-liði sem hefur verið hvað jafnbest í vetur,“ bætti Patrekur við.


Selfyssingurinn Haukur Þrastarson var frábær í leiknum og Patrekur var óspar á lofið í hans garð.

„Sko, þessi frammistaða hjá Hauki Þrastar [...] Hann er sextán ára gamall að spila lykilhlutverk í vörn og sókn. Hann er með sextán stöðvanir í vörninni og skorar sex mörk. Þetta er frábært og ég er hrikalega stoltur af honum. Auðvitað er hann ungur og allt það. En hann er búinn að spila einhverja tíu leiki í vetur og hann hefur sýnt þetta í flestum þeirra. Ótrúlegur gæi,“ sagði Patrekur að lokum.


mbl.is