Guðjón Valur sló heimsmetið

Guðjón Valur Sigurðsson er orðinn markahæsti landsliðsmaður sögunnar.
Guðjón Valur Sigurðsson er orðinn markahæsti landsliðsmaður sögunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsfyrirliði Íslands, er orðinn markahæsti landsliðsmaður í sögu handknattleiksíþróttarinnar.

Guðjón Valur sló metið rétt í þessu í vináttulandsleik Íslendinga og Þjóðverja í Þýskalandi, síðasta leiknum fyrir Evrópumótið í Króatíu. Metið hafði verið lengi í eigu Ungverjans Peter Kovács sem skoraði 1.797 landsliðsmörk á árunum 1973-1995.

Guðjón Valur þurfti eitt mark í leiknum í dag til að jafna Kovacs og skoraði það snemma leiks. Hann bætti svo metið tæpu korteri fyrir leikslok með marki úr vítakasti, og var vel fagnað af samherjum sínum.

Guðjón Valur lék sinn fyrsta A-landsleik 16. desember árið 1999 gegn Rúmeníu í Haarlem í Hollandi og skoraði þá sín fyrstu tvö landsliðsmörk. Hann hefur farið með íslenska landsliðinu á alls 20 stórmót á þessari öld og það 21. er handan við hornið.

Guðjón Valur Sigurðsson ræðir við Ívar Benediktsson, blaðamann Morgunblaðsins og …
Guðjón Valur Sigurðsson ræðir við Ívar Benediktsson, blaðamann Morgunblaðsins og mbl.is, sem 1. mars á síðasta ári birti ítarlega samantekt um það hverjir markahæstu landsliðsmenn handboltasögunnar væru. Áður lágu upplýsingar um það ekki fyrir. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert