„Ég lít á þetta sem leikrit“

Geir Sveinsson.
Geir Sveinsson. mbl.is/Árni Sæberg

Geir Sveinsson, fráfarandi landsliðsþjálfari karla í handknattleik, segist í samtali við mbl.is finnast ósanngjarnt að hann hafi verið látinn bíða eftir svari frá handknattleikssambandinu á meðan rætt hafi verið við aðra þjálfara. Hann segir HSÍ hafa haft nægan tíma til að tjá sér að þeir vildu róa á önnur mið áður en nýr landsliðsþjálfari, Guðmundur Guðmundsson, var kynntur á blaðamannafundi.

„Ég lít á þetta sem leikrit og fer ekki ofan á því. Á einhverjum tímapunkti fékk ég það svar að beðið yrði eftir því að ég myndi leggja skýrslu fyrir stjórnina. Ég mætti á þann fund en þar er um að ræða skýrslu sem landsliðsnefndin fær alltaf eftir öll stórmót. Sem er hinn eðlilegasti hlutur. Formaður landsliðsnefndar fór fram á að skýrslan yrði einnig kynnt stjórninni og ég varð að sjálfsögðu við þeirri beiðni. Ég mætti á fundinn og flutti skýrsluna munnlega og var það í sjálfu sér fínn fundur. Í rauninni eru slíkir fundir alltof sjaldan haldnir því á heildina litið er skortur á slíkri umræðu í hreyfingunni sem og allri framtíðarumræðu. Alltof mikið er horft í baksýnisspegilinn og meira mætti ræða um framtíðina.

Ég gerði mér grein fyrir því að fundurinn myndi ekki skila einu eða neinu í mína þágu, hvað möguleika á áframhaldandi starfi snerti. Að fundinum loknum óskaði ég eftir því við forsvarsmenn stjórnar og landsliðsnefndar að svarið við því hvort ég myndi halda áfram sem landsliðsþjálfari eða ekki myndi liggja fyrir sem fyrst. Ef menn vildu ekki lengur mína starfskrafta þá ættu menn bara að segja það og koma hreint fram, óháð því hvort þær næðu að finna einhvern annan. Ég benti jafnframt á að ég væri að fara í frí, sem ég er í núna, og sú tímasetning tengdist vetrarfríi í skólum. Ég óskaði eftir því að heyra frá þeim fyrir þann tíma sem gerðist ekki. Eftir þann tíma gat ég einfaldlega ekki svarað símanum þegar þeim hentaði enda var nægur tími fram að því til að tilkynna mér að þeir væru að ræða við annan þjálfara,“ sagði Geir þegar hann fór yfir atburðarrásina eftir EM í Króatíu. Spurður nánar út í fundinn þá sagðist Geir sjálfur hafa viljað ræða um framtíð sína hjá HSÍ en viðbrögðin hafi verið dræm.

„Á fundinum fór ég yfir undirbúninginn fyrir HM og allt mótið. Um það mynduðust ágætar umræður í klukkutíma eða svo sem var fínt. Þá ákveður formaður HSÍ að slíta fundinum. Þá sagði ég að við þyrftum auðvitað að ræða fílinn í stofunni, ræða mína stöðu. Ég þurfti því í raun að þvinga fram á fundinum að mín staða yrði rædd. Þá sköpuðust ekki umræður heldur var ég sá eini sem tók til máls og þar sagðist ég einfaldlega vera kominn á fundinn til að berjast fyrir minni stöðu. Að við værum búnir að halda okkur inná öllum stórmótum, liðið væri á réttri leið og að allt mitt starf yrði ekki dæmt af 15 mínútna kafla á móti Serbum. Enginn úr stjórninni tjáði sig. Formaður HSÍ sagðist taka sér sjö til tíu daga til að gefa mér svar.

Síðar sagði ég við varaformann, framkvæmdastjóra HSÍ og formann landsliðsnefndar í símtölum að þeir hljóti að hafa myndað sér skoðun á því hvort þeir vilji mig sem landsliðsþjálfara eða ekki. Ég vildi bara að þeir segðu mér hvort þeir vildu hafa mig áfram í starfi eða ekki. Það er ósanngjarnt að ég sé látinn bíða á meðan rætt er við einhvern annan. Var það á þriðjudegi en tæpri viku seinna er tekin sú ákvörðun að reyna að hringja í mig til að láta mig vita. Samstarf sem þetta snýst mikið um heiðarleika í samskiptum og menn sem fara fyrir sérsambandi þurfa að standa í lappirnar og standa með því sem þeir vilja gera.“

Óskar Bjarni Óskarsson fráfarandi aðstoðarþjálfari, Guðni Jónsson liðsstjóri og Geir …
Óskar Bjarni Óskarsson fráfarandi aðstoðarþjálfari, Guðni Jónsson liðsstjóri og Geir Sveinsson. mbl.is/Golli


Fór út og fundaði með Mattias Andersson

Geir botnar lítið í því að HSÍ sé nú tilbúið til að ráða Tomas Svensson sem markmannsþjálfara þar sem Geir beitti sér fyrir því að Mattias Andersson, fyrrverandi markvörður sænska landsliðsins og Evrópumeistara með Flensburg, yrði ráðinn sem markmannsþjálfari fyrir landslið HSÍ í fyrra. Geir vann talsverða vinnu í því sambandi í samráði við Axel Stefánsson landsliðsþjálfara kvenna.

„Eftir HM í Frakklandi hélt ég tölu þar sem ég fór yfir muninn á okkur og bestu landsliðunum og þar hafði markvarslan mikið að segja. Hún var betri í prósentum á EM í ár heldur en á HM í fyrra en við þurfum ekki annað en að horfa til Svíana og fleira liða, sem eru með tvo góða markverði, til að sjá að markvarslan skiptir miklu máli. Þess vegna lagði ég mikla vinnu í þetta ásamt Axel Stefánssyni þar sem staðan er svipuð hjá kvennaliðinu. Við höfum starfað mjög vel saman og höfum reynt að horfa á allt starfið, einnig yngri landsliðin. Við lentum svolítið á vegg og fórum sjálfir í að gera hlutina. Í gegnum Axel og norska sambandið töluðum við við Þóri Hergeirsson og Mats Olsson (sem vinnur með norska kvennalandsliðinu og sænska karlalandsliðinu) um það hvernig þeir vinna hlutina.

Ég setti dæmið þannig upp að það yrði ekki fyrr en í ágúst 2018 sem HSÍ þyrfti að leggja út einhverjar greiðslur svo þetta yrði ekki of íþyngjandi fyrir sambandið ef af yrði. Ég var í miklu sambandi við Mats og fór til Flensburgar og hitti þar Mattias. Hann hafði sínar skoðanir á því hvað okkur vantaði því við höfðum ekki skapað okkur grunn í vinnu sem þessari. Ég teiknaði upp samning við hann með vitneskju stjórnarinnar því ég fór ekki í þær viðræður án heimildar. Ég sendi formanni og stjórnarmönnum tölvupóst með helstu upplýsingum. Ég horfði á þetta í stóru samhengi fyrir HSÍ en bauð upp á ódýrari leið sem plan b þess efnis að hann myndi þá bara koma að A-landsliði karla. Mér sveið mest áhugaleysi formannsins gagnvart þessu því samtalið um þetta var ekki einu sinni tekið.“

Mattias Andersson, þáverandi markvörður Grosswallstadt í leik á móti Haukum. …
Mattias Andersson, þáverandi markvörður Grosswallstadt í leik á móti Haukum. Fyrir framan sjást þeir Freyr Brynjarsson og Haukum, Sverre Jakobsson. mbl.is/hag

Hafnaði tveimur tilboðum

Síðasta sumar hafnaði Geir tveimur tilboðum annars vegar frá öðru landsliði en einnig frá portúgalska félagsliðinu Porto. Segist hann hafa veðjað á að hann ætti framtíð sem landsliðsþjálfari ef liðið kæmist á EM sem raunin varð.

„Þegar ég var með afrekshópnum í Noregi í júní í fyrra þá fékk ég tilboð um að taka að mér landslið sem var áhugavert en þar sem ég var að þjálfa landslið þá gaf ég það frá mér. Einnig var mér boðið að taka við Porto í Portúgal. Ég velti mikið fyrir mér að taka því tilboði en framundan voru tveir síðustu leikirnir í undankeppninni á móti Tékkum og Úkraínu. Fyrst vildu Portúgalarnir ekki að ég yrði einnig landsliðsþjálfari Íslands en ég náði því í gegn. En þegar ég fór að velta því fyrir mér þá fannst mér það vera svolítið mikið til dæmis gagnvart fjölskyldunni að þjálfa bæði félagslið og landslið sem og auðvitað því að það þýddi að ég gæti ekki sinnt íslenska liðinu sem skyldi, eða þeim verkefnum sem ég var að koma í gang hjá HSÍ eins og samstarfinu við HR, afrekshópnum, styrktarþjálfun yngri landsliðanna og fleiru.

Geir Sveinsson
Geir Sveinsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Þá lét ég HSÍ vita að ég væri í þessum pælingum og vildi þar af leiðandi kanna mína stöðu. Ég vissi auðvitað að samningur minn myndi renna út eftir EM í janúar og vildi vita hver mína staða væri varðandi mögulega endurnýjun. Ég fékk ekki annað en góð fyrirheit. Ég hafnaði Porto og veðjaði á að ég kæmist inn á EM 2018. Þar af leiðandi taldi ég að þá hlyti ég að vera á réttri leið eftir að hafa komið liðinu inn á HM og EM. Hjá HSÍ myndu menn þá vera tilbúnir til að setjast niður og ræða áframhaldandi samstarf. Þá hafði ég samband við HSÍ og óskaði eftir því að fá skýr svör sem fyrst en gaf þeim sex vikur. Þær sex vikur breyttust í hátt á fimmta mánuð.“

„Til hvers var verið að ráða mig?“

Spurður um hvort hann sé sáttur við árangur landsliðsins á starfstímanum segist Geir ganga stoltur frá borði.

„Landslið Íslands er í umbreytingarferli sem tekur sinn tíma. Nýr landsliðsþjálfari talar um 3-4 ár. Ég fékk 20 mánuði. Ég fría mig ekki ábyrgð hvað varðar frammistöðu landsliðsins. Ég stend og fell með því. Ég ber ábyrgð á því að liðið fór ekki upp úr riðlinum á EM. Það er bara þannig. Ég gerði mín mistök og þarf að fara yfir þau. Ég geng hins vegar einstaklega stoltur frá borði þegar ég horfi til þess hvaða breytingar þurfti að gera en náðum um leið að halda okkur inni á stórmótunum. Við fórum á HM og EM auk þess að tryggja okkur í efri styrkleikaflokk. Það er því ekki eins og sigurinn á Svíum hafi engu skilað. Ég er búinn að búa til fjölda nýrra landsliðsmanna og margir leikmenn sem voru í varahlutverkum eru orðnir aðalleikarar. Ég er einnig ánægður með þá umgjörð sem tókst að skapa. Starfsfólkið sem vann með mér var frábært, aðstoðarþjálfararnir, læknarnir og sjúkraþjálfararnir. Allir voru á sömu blaðsíðu að reyna að gera þetta eins faglegt og hægt er.

En þegar ég horfi til baka þá er fjandi erfitt að maður hafi aldrei mátt misstíga sig því þá væri starfið í hættu. Ég spyr mig hvers vegna var verið að ráða mig? Í júní hafði ég verið fimmtán mánuði í starfi og náð þeim áföngum sem ég hef bent á. Við starfslok mín þá er verið að bera okkur Gumma saman og þegar ferilskrá okkar er skoðuð þá er sá samanburður mér klárlega í óhag. En málið er bara ekki svo einfalt,“ sagði Geir Sveinsson í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert