Óvænt tíðindi úr herbúðum Króata

Lino Cervar á hliðarlínunni á EM.
Lino Cervar á hliðarlínunni á EM. AFP

Óvænt tíðindi bárust í dag úr herbúðum króatíska karlalandsliðsins í handknattleik er tilkynnt var að þjálfarinn Lino Cervar yrði áfram með liðið. Það var áður talið útilokað þar sem frammistaða Króata á heimavelli á EM í janúar var langt fyrir neðan væntingar.

Króatar höfnuðu í 5. sæti á EM en nánast var búið að gera kröfu til verðlauna á mótinu. Cervar tók við Króötum á ný fyrir ári, eftir að hafa áður stýrt liðinu frá 2002 til 2010 og vann meðal annars HM og Ólympíuleika með liðinu.

Króatar mæta Svíum í tveimur vináttuleikjum í byrjun apríl. Þá mætast Króatía og Svartfjallaland í umspili um sæti á heimsmeistaramótinu 2019, en stjórn handknattleikssambands Króatíu taldi of nauman tíma að finna annan þjálfara í stað Cervar fyrir þessi verkefni og fékk hann því að halda starfi sínu.

mbl.is