Grótta stefnir á úrslitakeppnina

Bjarni Ófeigur Valdimarsson, Gróttu.
Bjarni Ófeigur Valdimarsson, Gróttu. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Bjarni Ófeigur Valdimarsson, leikmaður Gróttu, var sigurreifur eftir frækinn 29:27-sigur á Aftureldingu í 18. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í kvöld.

„Þetta byrjaði allt á góðum varnarleik, svo vorum við agaðir í sókn og töpum fáum boltum.“

„Við vildum fyrst og fremst koma tvíefldir til baka eftir tapið á móti ÍBV í bikarnum, við erum að klifra upp töfluna og verðum betri og betri með hverjum deginum.“

Bjarni var sjálfur frábær í leiknum og skoraði 10 mörk en hrósaði liðinu í hástert og sagði það langt komið frá erfiðri byrjun á haustinu.

„Þetta er allt annað lið sem er að spila núna, við erum búnir að vera saman í einhverja sex mánuði. Þetta er allt annað lið en var í byrjun hausts, við þekkjum hver annan betur og þetta er allt að koma.“

Grótta tapaði fyrstu átta deildarleikjunum sínum og virtist staðan ansi svört en með sigrinum í dag er liðið með 11 stig, fimm stigum frá fallsæti. Bjarni er þó ekki að horfa niður enda fjögur stig í sæti í úrslitakeppninni og vill hann nú stefna þangað.

„Við vorum með markmið um að halda okkur í deildinni en núna eigum við bara að setja markið upp í þakið og stefna á úrslitakeppnina, við ætlum að gera það.“

Grótta var mest fimm mörkum yfir en undir lokin náði Afturelding að minnka muninn niður í eitt. Bjarni viðurkenndi að honum hefði ekki liðið vel þá en sagði það einnig merki um karakter að hans menn sigldu sigrinum í höfn.

„Maður fær alltaf smá í magann, sérstaklega þar sem við vorum yfir allan leikinn. En það er akkúrat á svona augnablikum þar sem þú færð að vita úr hverju þú ert gerður. Að brotna ekki á svona stundu heldur gefa smá í og klára leikinn, það skiptir miklu máli að geta það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert