Stórsigur Fram í bikarúrslitum

Íslandsmeistarar Fram sýndu enga miskunn þegar liðið mætti Haukum í úrslitaleik bikarkeppni kvenna í handknattleik, Coca Cola-bikarsins  í Laugardalshöll í dag. Fram burstaði Hauka 30:16 en staðan að loknum fyrri hálfleik var 14:6. 

Kvennalið Fram í handknattleik er afar sigursælt og liðið sigraði í bikarkeppni HSÍ í fimmtánda skipti í sögu félagsins. 

Undanúrslitin fóru fram á fimmtudag. Fram vann þá þriggja marka sigur á ÍBV, 29:26, en Haukar unnu 1. deildarlið KA/Þórs 23:21.

Þegar í úrslitaleikinn var komið í dag tók Fram strax öll völd á vellinum og Hafnfirðingar áttu aldrei möguleika. Vörn Fram var geysilega sterk frá fyrstu mínútu með Steinunni Björnsdóttur og Ragnheiði Júlíusdóttur fyrir miðju. Guðrún Ósk Maríasdóttir fann sig vel í markinu og varði jafnt og þétt allan leikinn. Þegar uppi var staðið varði hún 17 skot og sat þó á bekknum síðustu mínútur leikins. Þegar færi gafst voru Þórey Rósa Stefánsdóttir og Sigurbjörg Jóhannsdóttir fljótar fram í hraðaupphlaup. 

Fram náði sér fljótt í góða stöðu og komst í 6:1. Fram lagaði stöðuna í 6:3 en það sem eftir var leiks var meiri munur á liðunum. Haukar skoruðu einungis sex mörk í fyrri hálfleik sem sýnir ágætlega hversu erfiðlega liðinu gekk að skora. Strax í upphafi síðari hálfleik tókst Fram að ná muninum upp í tíu mörk og þá var ljóst að Haukar myndi ekki ná að snúa leiknum sér í hag. Þegar leið á leikinn forðuðu Haukar sér frá því að lenda í stærsta tapi í sögu bikarúrslitaleikja kvenna en metið er fimmtán marka munur. 

Þórey Rósa Stefánsdóttir skoraði 7 mörk fyrir Fram og þær Karen Knútsdóttir og Elísabet Gunnarsdóttir gerðu 5 mörk hvor. Berta Rut Harðardóttir skoraði 9 mörk fyrir Hauka og þar af 6 úr vítum en hún nýtti öll vítin sem hún tók. Berta skoraði því gríðarlega hátt hlutfall af mörkum Hauka í leiknum. Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði 9 mörk í marki Hauka. 

Fram 30:16 Haukar opna loka
60. mín. Leik lokið Leiknum er lokið með fjórtán marka stórsigri Fram 30:16.
mbl.is