Gefur auka orku að sjá þær detta

Berta Rut Harðardóttir skoraði átta mörk í kvöld.
Berta Rut Harðardóttir skoraði átta mörk í kvöld. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Við ætluðum ekki að leyfa áhorfendum að sjá annan svoleiðis leik," sagði Berta Rut Harðardóttir, leikmaður Hauka, eftir 25:21-sigur á Fram í næstsíðustu umferð Olísdeildarinnar í handbolta í kvöld. Fram vann 30:16-sigur er þau mættust í bikarúrslitum um síðustu helgi. 

Ljóst var á fyrstu mínútu að Haukakonur ætluðu ekki að leyfa Fram að komast upp með annað eins í kvöld og léku þær finna fyrir sér í vörninni.

„Við vinnum þetta klárlega á vörninni. Við börðum vel á þeim og það gekk allt upp. Við notuðum úrslitaleikinn til að gera okkur klárar. Það var engin tilbúin í þann leik, en í dag sýndum við hvernig handbolta við getum spilað."

Berta segir viðbrögð Framkvenna við varnarleiknum hafa gefið auka orku, en nýkringdu bikarmeistararnir virtust hreinlega hræddir í sóknarleik sínum á köflum.

„Það voru allir tilbúnir, vörnin barðist, barðist og barðist og það voru allir tilbúnir í þetta. Það er eins og það henti okkur vel að mæta þeim. Við lemjum á þeim og það gefur okkur auka orku að sjá þær detta í gólfið."

Haukar mæta toppliði Vals í næstu síðustu umferðinni og svo tekur við viðureign við ÍBV, Hauka eða Val í úrslitakeppninni.

„Við erum að fara inn í síðasta leikinn til að vinna. Við þurfum að halda áfram að spila svona og verður erfitt fyrir öll lið að mæta okkur," sagði Berta að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert