„Vörnin er aðalatriðið“

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, Val, í leik á móti Fram.
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, Val, í leik á móti Fram. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Verður þetta ekki bara stál í stál?“ spurði Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, línumaður Vals, þegar mbl.is ræddi við hana úr úrslitarimmuna við Fram um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik sem hefst í kvöld.

Valur varð deildameistari í vetur og er með heimaleikjaréttinn af þeim sökum en Fram er ríkjandi Íslandsmeistari og varð bikarmeistari í vetur. „Ég ímynda mér að fleiri telji Fram vera sterkara lið á blaði en ég held að þetta snúist um hjá hvoru liði viljinn verður meiri,“ sagði Anna en Valur fór í fimm leikja gegn Haukum í undanúrslitum. Anna telur þá leiki ekki eiga eftir að sitja í Valskonum en þétt er leikið í úrslitakeppninni. 

„Nei ég held ekki ef ég tek mið af því sem ég hef upplifað í gegnum tíðina. Þetta er bara framhald og farvegur úrslitakeppninnar. Ég hef upplifað að fara í þrjá leiki í undanúrslitum og hef upplifað að fara í fimm leiki í undanúrslitum. Á þessu er enginn munur því leikmenn mæta tilbúnir í leiki í úrslitum.“

Anna er í lykilhlutverki í miðri vörn Vals sem mun hafa í mörg horn að líta enda Framarar með hættulega leikmenn fyrir utan eins og Ragnheiði, Hildi, Karen og Sigurbjörgu. „Þær eru með mörg vopn og við þurfum að eiga toppleiki á móti þeim. Vörnin er aðalatriðið og takist okkur að stöðva skytturnar þá er það stór þáttur. Við munum reyna að loka á þær og ef skytturnar verða ekki heitar þá eykur það okkar möguleika,“ sagði Anna Úrsúla í samtali við mbl.is. 

Fyrsti leikur Vals og Fram fer fram á Hlíðarenda í kvöld klukkan 19:30 en vinna þarf þrjá leiki til að verða meistari. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert