Forréttindi að fá að spila svona leiki

Adam Haukur Baumruk með skot að marki ÍBV í Eyjum …
Adam Haukur Baumruk með skot að marki ÍBV í Eyjum í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Hauka, átti algjöran stórleik, sem dugði þó ekki til þegar ÍBV og Haukar mættust í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins. Björgvin varði sextán bolta en félagi hans í marki ÍBV, Aron Rafn Eðvarðsson, varði nítján skot.

„Þetta var frábær leikur, frábær handboltaleikur, það var gaman að taka þátt í honum. Við vorum í vandræðum sóknarlega í fyrri hálfleik, en samt ekki. Þeir voru með markmann í markinu sem hefur klukkað ansi mikið á móti okkur, hann gerði okkur lífið erfitt, átti frábæran leik í fyrri hálfleik og dró tennurnar úr okkur. Við vorum að spila frábæra vörn allan leikinn og höfum verið að gera í allan vetur, við verðum að byggja á því. Þetta var mikil skemmtun og það er æðislegt að koma til Eyja. Ég hlakka til að koma næst.“

Hvað er það við þennan heimavöll Eyjamanna sem gerir hann að skemmtilegum leikvelli?

„Það er umgjörðin og stemningin í höllinni, það er svo auðvelt að mótivera sig og fá geðshræringuna upp í leikmönnum. Það er frábært að taka þátt í svona verkefni, þetta eru forréttindi að fá að spila svona leiki á svona stað þar sem orkan er mjög mikil. Við hlökkum til að fá alla til að mæta á Ásvelli og taka þá þar.“

Mögulega erfiðasti leikur sem ég hef séð fyrir dómara

Markverðir liðanna gáfu tóninn í byrjun en þeim tókst báðum að verja fjölda skota.

„Við vorum að reyna á okkur, það er klárt. Í svona leikjum eru markverðirnir mikilvægir faktorar, við þurfum að spila góðan leik, Aron vann leikinn í dag og var frábær, hann á allt hrós skilið. Beggi á líka hrós skilið, fyrir sinn hlut sóknarlega hjá þeim, þeir stíga upp Haukamennirnir þegar það reyndi á í þessum leik. Þetta verður svona einvígi út mótið og ég er mjög spenntur að takast á við þetta verkefni.“

Upp úr sauð undir lokin og stuttu seinna fékk Magnús Stefánsson, fyrirliði ÍBV, rautt spjald, hvað fannst Björgvini um frammistöðu dómara leiksins, heilt yfir?

„Mér fannst dómararnir frábærir og vil ég að það komi skýrt fram. Þetta er mögulega erfiðasti leikur sem ég hef séð, fyrir dómara. Ég veit ekki hvort það komst heim í gegnum sjónvarpið en lætin hérna, geðshræringin og margir 50/50 dómar sem eru ógeðslega erfiðir. Ég ætla að gefa þeim stórt prik í kladdann og ætla ekki að ræða þetta atvik með Magga, hann veit upp á sig skömmina.“

Að vissu leyti með þunnskipaðan sóknarhóp

Daníel Þór Ingason og Adam Haukur Baumruk voru flottir í leiknum og eru með sextán af 22 mörkum gestanna, saknar Björgvin meira framlags frá öðrum leikmönnum?

„Að vissu leyti, við erum með þunnskipaðan sóknarhóp, við erum með nokkra menn sem eru tæpir, þegar við lendum á þessari vörn á meðan hún er heit, þá er þetta ógeðslega erfitt. Við þurfum þá framlag úr hraðaupphlaupunum, til að refsa þeim aðeins meira, við fengum færin en nýttum þau ekki og þar liggur framlagið. Við þurfum að mæta á næstu æfingar og bæta skotin, ná fleiri prósentum þar, annars er sóknarleikurinn fínn,“ sagði Björgvin að lokum en það er synd að stórleikur hans hafi ekki skilað Haukamönnum sigri.

Björgvin Páll Gústavsson átti stórleik í kvöld en það dugði …
Björgvin Páll Gústavsson átti stórleik í kvöld en það dugði ekki til. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert