Búin að upplifa margt þó að ég sé 19 ára

Lovísa Thompson komin í Valsbúninginn.
Lovísa Thompson komin í Valsbúninginn. mbl.is/Sindri

„Grótta er alltaf mitt félag og ég yfirgef það auðvitað með smásöknuði. Ég held hins vegar að það hafi ekkert annað verið í stöðunni til að fá það sem ég vil út úr ferlinum,“ segir Lovísa Thompson, landsliðskona í handbolta, sem gengin er í raðir Vals.

Lovísa á að baki 7 A-landsleiki og 25 leiki fyrir yngri landslið Íslands. Hún hefur allan sinn feril leikið með Gróttu, varð meðal annars Íslandsmeistari með liðinu 2015 og 2016, og kjörin efnilegasti leikmaður Olís-deildarinnar bæði ár. Því er ljóst að mikill fengur er í Lovísu fyrir Val:

„Það voru nokkur félög og það var alveg erfitt að velja. En umgjörðin hjá Val, aðstaðan og liðið, þetta heillaði mig mest. Ég veit að það er mikill metnaður til að ná árangri og það er það sem að ég vil á mínum ferli,“ segir Lovísa, sem hefur bæði kynnst því að vinna titla og að falla með liði sínu Gróttu, sem fór niður um deild nú í vor:

„Það er einmitt erfitt að kynnast því að vera í toppliði, fara svo í að vera meðallið, og falla svo. Maður er því búinn að upplifa margt þó að maður sé bara 19 ára. Ég held að þetta sé rétt skref sem ég tek í dag.“

Lovísa er ein fjögurra öflugra leikmanna sem gengu í raðir Vals í dag og ljóst að félagið stefnir á titla á næstu leiktíð:

„Mér finnst gaman að það sé einhver pressa á manni, að maður þurfi að standa sig vel því maður vill gera það. Ég fagna því bara,“ segir Lovísa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert