Erfitt val fyrir Litháenför

Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, t.v., Guðmundur Þórður Guðmundsson og …
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, t.v., Guðmundur Þórður Guðmundsson og Guðjón Valur Sigurðsson á blaðamannafundi í dag þar sem íslenska landsliðið í handknattleik karla sem leikur við Litháa ytra á föstudag var kynnt. mbl.is/Hari

„Valið var erfitt enda að mörgu að hyggja,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, þegar hann valdi í dag 16 leikmenn til þess að taka þátt í fyrri viðureigninni við Litháen í undankeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik  sem fram fer í Vilnius í Litháen á föstudaginn.

Guðmundur hefur haft 21 leikmann á æfingum síðustu daga og valdi af þeim 16 í dag. Hinir fimm sem eftir standa æfa áfram með liðinu þegar það kemur heim á sunnudag fyrir síðari viðureignina við Litháen sem fram fer á miðvikudaginn eftir viku í Laugardalshöll. Samanlögð úrslit leikjanna tveggja skera úr um hvort það verður íslenska eða litháska landsliðið sem tekur þátt í heimsmeistaramótinu sem fram fer í janúar nk. í Danmörku og Þýskalandi.

Fimmmenningarnir sem standa utan hópsins nú eru Arnar Birkir Hálfdánsson,  Bjarki Már Elísson, Theodór Sigurbjörnsson, Ýmir Örn Gíslason og Viktor Gísli Hallgrímsson.  Þess utan eru Aron Rafn Eðvarðsson, Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ólafur Bjarki Ragnarsson meiddir gátu ekki gefið kost á sér af þeim sökum.

„Þeir fimm sem ekki voru valdir til Litháenferðarinnar eru hluti af liðinu og koma til álita í síðari leikinn. Um er að ræða sterka leikmenn,“ sagði Guðmundur Þórður í samtali við mbl.is. „Valið var erfitt því það eru margir leikmenn sem banka á dýr landsliðsins um þessar mundir. Það hef ég orðið vel var við á þeim tveimur vikum sem við höfum verið saman við æfingar og 30 leikmenn tekið þátt í þegar allt er talið saman.“

Guðmundur segir val sitt að einhverju leyti endurspegla að hann sæki í reynslumeiri menn til þess að komast í gegn verkefnið sem framundan er. Yngri leikmenn þurfi á stuðningi að halda af reynslumeiri mönnum. „Þar af leiðandi er frábært að hafa enn nokkra reynslumenn í hópnum en þeim hefur farið fækkandi undanfarin misseri og ár.“

Guðmundur reiknar með hörkuleik við Litháen, ekki síst í fyrri leiknum í Vilnius þar sem Litháar eru erfiðir heim að sækja, að sögn Guðmundur. „Það hljómar ef til vill eins og ég sé að gera meira úr þeim en raun ber vitni um. Svo er ekki. Litháar hafa áð skipa mjög góðu liði. Ég hef skoðað leik þeirra mjög vel,“ sagði Guðmundur.

„Lið Litháa er afar frambærilegt sem sýnir sig best á að það vann norska landsliðið örugglega á sínum heimavelli fyrir tveimur árum og tapar með eins marks mun fyrir Frökkum. Auk þess þá unnu Litháar lið Hvít-Rússa á sunnudaginn í Hvíta-Rússlandi. Þarf frekari vitnanna við um styrk landsliðs Litháen?Það held ég ekki,“ sagði Guðmundur Þórður sem stýrir íslenska landsliðinu nú í fyrsta sinn í mótsleik eftir að hann tók við starfi landsliðsþjálfara í þriðja sinn á ferlinum í febrúar.

„Við berum tilhlýðilega virðingu fyrir landsliði Litháen því við vitum að til þess að vinna þá verðum við að leika eins vel og kostur er á,“ sagði Guðmundur og bendir á ein helsta skytta landsliðs Litháen, Jonas Truchanovicius leikur stórt hlutverk í liði Evrópumeistara Montpellier.  „Miðjumaðurinn Aidenas Malasinskas er heili liðsins, frábær leikmaður sem meðal annars hefur leikið í Meistaradeild Evrópu.

Síðan er liðið skipulagt og fast fyrir í varnarleiknum,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla sem fer með sveit sína til Vilnius í rauðabýtið á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert