Ótrúlegt að fólk skuli ekki hafa labbað út

Kristinn Guðmundsson, aðstoðarþjálfari ÍBV í Olísdeild karla, var ekki sáttur með stigið sem hans lið fékk úr fyrsta leik liðsins í Olís-deild karla og sagði það ljóst að hans lið hefði vanmetið andstæðinginn, Gróttu.

„Fyrri hálfleikurinn er klár vonbrigði fyrir okkur, við erum greinilega ekki klárir að byrja. Við förum með hreint og klárt vanmat inn í leikinn, við erum að gera ofboðslega mikið af ótrúlega skrýtnum mistökum. Við stöndum vörnina afar illa og þar af leiðandi er rosalega erfitt fyrir markvörðinn okkar að komast í gang, hleypum þeim upp á bragðið, þeir spila klókt og eru vel skipulagðir af Einari,“ sagði Kristinn en það er ljóst að honum lá margt og mikið á hjarta eftir leikinn.

„Við lendum í vandræðum með að berja okkur inn í leikinn aftur, ég veit ekki hvað við töpum mörgum boltum þar sem við köstum beint í hendurnar á þeim. Skipulagið sóknarlega var allt í lagi til að byrja með en svo förum við að rífa okkur alveg út úr því og spila einhvern allt annan handbolta. Þá erum við búnir að koma okkur í ótrúlega erfiða stöðu í hálfleik þar sem við erum sjö mörkum undir.“

Eyjamenn hófu seinni hálfleikinn þó vel og virtust ætla að minnka forskotið verulega, strax.

„Við vinnum okkur ágætlega til baka en erum svo í tómum vandræðum í raun og veru, þetta eru fjögur eða fimm mörk þegar það eru rúmar fimm mínútur eftir af leiknum. Þá sýnum við ótrúlegan karakter, en við fengum í raun að sjá það besta og versta, fyrri hálfleikurinn er það versta sem við höfum séð frá okkar mönnum andlega, síðustu mínúturnar eru svo það besta sem við höfum séð,“ sagði Kristinn en Gróttumenn reyndu allt hvað þeir gátu á lokakaflanum til að Eyjamenn næðu ekki að jafna en allt kom fyrir ekki.

Ekki boðlegt á besta heimavelli á Íslandi

„Það eru plúsar og mínusar í þessu en frammistaðan í fyrri hálfleik sérstaklega er ekki boðleg á besta heimavelli á Íslandi. Við erum með geðveika stuðningsmenn og það er ótrúlegt að fólk skuli ekki hafa labbað út, en í staðinn stendur þetta fólk við bakið á okkur allan leikinn og býður okkur upp á trúna í restina, sem betur fer náðum við að krafsa í eitt stig.“

Snýst starf Erlings Richardssonar og Kristins ekki um það að ná stöðugleika í liðið á næstu vikum?

„Sú barátta er alltaf í gangi, sérstaklega þegar við erum að koma nýir inn sem þjálfarar, ef við notum fyrri hálfleikinn sem lærdóm, ef við áttum okkur á því að við þurfum alltaf að vera klárir og vinnusemin þarf alltaf að vera til staðar. Við þurfum að klóra okkur áfram og ef við gerum það hef ég engar áhyggjur af því að það sé hægt að vinna og slípa saman það sem þarf að laga sóknarlega og varnarlega. Það er ekki það sem var að í dag, heldur miklu frekar andlega hliðin sem var alls ekki góð hjá okkur.“

Krafa á að menn leggi sig fram

Kristinn tók sér þó tíma í að hrósa Einari fyrir það sem hann hefur gert hjá Gróttu á síðustu vikum.

„Einhverjir voru að tala um að það væri allt í rjúkandi rúst þarna síðasta sumar, hann virðist vera búinn að setja saman ágætis lið. Á hann ekki að hafa Jóhann Reyni líka? Hann var ekki hér í dag, eða ég gat allavega ekki séð hann. Hann á það inni líka, þetta verður alveg erfitt tímabil hjá þeim og allt það, það er alveg ljóst, en þeir sýna það í dag að þeir eru ekkert djók. Við erum að tala um það að fæst liðin í deildinni eru þannig að þú getir labbað yfir þau án þess að hafa fyrir því. Hugsanlega sjáum við einhver ljót úrslit inn á milli en það er þá bara þegar góðu liðin eru klár og þau slakari sýna of mikla virðingu. Í dag sýndu þeir okkur enga virðingu og við áttum hana ekki skilið hvort sem er. Ég er fyrst og fremst hundsvekktur að vinna ekki leikinn og það hvernig andlega hliðin okkar var, en ef þú horfir á síðasta tímabil þá var fullt af liðum á toppnum sem misstu stig gegn slakari liðunum, það sýnir okkur það að þú ert að spila í hörkudeild og verður að taka það alvarlega,“ sagði kennarinn sem var virkilega málglaður eftir leik í dag.

Vantaði eitthvað upp á baráttuna hjá Eyjamönnum í dag sem eyddu einungis tveimur mínútum í brottvísunum gegn átján mínútum gestanna?

„Klárlega, við erum með svona fimm fríköst brotin í fyrri hálfleik, það gefur augaleið að þá ertu ekki að gera rassgat, þá ertu ekki klár í slaginn. Ég held að það sé ekkert erfitt að finna þá punkta sem við ætlum að vinna í fyrir leikinn gegn Stjörnunni. Við þurfum að hafa það í huga hvað við erum að bjóða fólkinu okkar upp á í frammistöðu. Það má alltaf fyrirgefa mönnum að gera mistök og allt það, auðvitað er krafa á fullt af hlutum hér í Eyjum en aðalkrafan er að menn leggi sig fram. Fólk kemur á völlinn til að sjá menn berjast eins og ljón, sem betur fer bjóðum við upp á það þegar líður á leikinn, en það mátti ekki tæpara standa í dag.“

Theodór Sigurbjörnsson skoraði níu mörk fyrir ÍBV í dag.
Theodór Sigurbjörnsson skoraði níu mörk fyrir ÍBV í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar
mbl.is