Setjum ekki markmið þegar við þekkjumst ekki

Sebastian Alexandersson í leiknum í dag.
Sebastian Alexandersson í leiknum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Sebastian Alexandersson, þjálfari Stjörnunnar í Olís-deild kvenna í handknattleik, var ánægður með ýmislegt hjá sínu liði en tekur ábyrgðina á sig eftir tap fyrir ÍBV, 27:25, í fyrstu umferð deildarinnar í Eyjum í dag.

„ÍBV-liðið er bara í sérflokki þegar það kemst á skrið. Það voru mistök af minni hálfu að hafa ekki tekið leikhlé og stoppað það í fæðingu. Ef þú missir stjórnina á leikhraðanum þá eru leikmenn ÍBV alveg stórkostlegar. Við töluðum um að stjórna hraða leiksins og gerðum það lengst af. Miðað við hvað ÍBV skoraði mörg mörk úr hraðaupphlaupum þá er ég mjög stoltur að hafa bara fengið 27 mörk á mig, það segir að varnarleikurinn sé geggjaður. Við erum að gera svolítið nýtt í vörn sem ég er hrikalega spenntur fyrir,“ sagði Sebastian meðal annars við mbl.is.

Varðandi markmiðin fyrir tímabilið var Sebastian hreinskilinn.

„Ég er nýr maður á nýjum stað með nýja leikmenn þar sem enginn þekkir hvern annan og við erum að fara af stað á núllpunkti. Markmiðin okkar eru að fara í hvern leik til að vinna, þó það sé klisja. Við getum ekki myndað okkur markmið á meðan við þekkjumst ekki neitt,“ sagði Sebastian Alexandersson við mbl.is.

Guðný Jenný Ásmundsdóttir í leiknum í dag.
Guðný Jenný Ásmundsdóttir í leiknum í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Gerum þetta erfitt fyrir okkur sjálfar

Guðný Jenný Ásmundsdóttir, markvörður ÍBV, var að vonum ánægð eftir að liðið vann Stjörnuna.

„Ég er alltaf ánægð með sigur, tvö stig eru alltaf mikilvæg. Þessi góði kafli sem við náðum í vörninni í fyrri hálfleik skilaði þessu hjá okkur þar sem við náðum að refsa þeim. Við fórum með sex marka forskot inn í seinni hálfleik, en hann var svolítið erfiður hugarfarslega séð. Við vorum of uppteknar við að halda forskoti en að bæta í,“ sagði Guðný við mbl.is.

Guðný átti sjálf hörkuleik í markinu og varði 16 skot. „Jájá, en samt pínu pirruð út í mig í seinni hálfleik.“

En hvernig leggst komandi tímabili í hana og Eyjaliðið?

„Þetta leggst mjög vel í mig. Æfingaleikirnir sem við náðum að taka finnst mér hafa lofað mjög góðu. Við þurfum að einbeita okkur að því að fá meiri stöðugleika í spilið, að við séum ekki að detta í það að skíta upp á bak eins og við lentum í hér í seinni hálfleik. Við gerum þetta erfiðara fyrir okkur en við þurfum,“ sagði Guðný við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert