Þetta eru sæt stig

Elvar Ásgeirsson, leikmaður Aftureldingar, sækir að Kristjáni Orra Jóhannssyni ÍR-ingi.
Elvar Ásgeirsson, leikmaður Aftureldingar, sækir að Kristjáni Orra Jóhannssyni ÍR-ingi. mbl.is/Hari

„Sigrarnir verða ekki tæpari en þessi. Hér var um spennutrylli að ræða eins og við mátti búast gegn ÍR-ingum sem gefa alltaf allt sitt í leiki. Þeir gefast aldrei upp,“ sagði Ásgeir Jónsson, aðstoðarþjálfari Aftureldingar, eftir nauman sigur liðsins, 28:27, á ÍR að Varmá í kvöld í annarri umferð Olís-deildarinnar í handknattleik karla.

Júlíus Þórir Stefánsson skoraði sigurmarkið rúmri minútu fyrir leikslok en bæði lið gátu bætt við mörkum á síðustu mínútu leiksins.

„Mér fannst við leika illa lengst af. Menn voru ekki nógu klókir í sóknarleiknum þar sem á stundum voru hreinlega teknar barnalegar ákvarðanir, ekki síst þegar við vorum manni færri. Þá fengu ÍR-ingar tækifæri til þess að skora auðveld mörk, meðal annars skoraði Stephen Nilesen, markvörður ÍR, fjögur mörk með skotum yfir endilangan völlinn eftir slæmar ákvarðanir okkar í sókninni,“ sagði Ásgeir sem þakkaði sigurinn þeirri ákvörðun að breyta um varnarleik undir lokin. Þar með tókst betur að slá vopnin úr höndum ÍR-inga.

„Þessi leikur gaf svolítið tóninn fyrir veturinn. Ég held að margir leikir verði jafnir og deildin verður jafnari en margir reikna með. ÍR-ingar eru með hörkulið. Þeir eiga hrós skilið fyrir hörkuframmistöðu.

Þetta voru sæt stig,“ sagði Ásgeir Jónsson, aðstoðarþjálfari Aftureldingar, í samtali við mbl.is í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert