Valskonur skelltu í lás og stungu af

Lovísa Thompson er hér að skora eitt af 9 mörkum …
Lovísa Thompson er hér að skora eitt af 9 mörkum sínum í leiknum gegn KA/Þór. mbl.is/Árni Sæberg

Ekkert varð af því að viðureign Vals og KA/Þórs yrði jöfn og spennandi eins og bærilegar vonir stóðu til áður en leikmenn liðanna gengu fram á keppnisvöllinn í Origo-höll Valsmanna í gærkvöldi til viðureignar í áttundu umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik.

Skemst er frá að segja að leikurinn var einstefna af hálfu Valskvenna nánast frá upphafi og til enda. Lokatölurnar voru í takt við það, 15 mörkum munaði á liðunum þegar upp staðið, 31:16, Val í vil sem þar með hefur tveggja stiga forskot í efsta sæti deildarinnar.

Staðan að loknum fyrri hálfleik var 15:7, Valskonum í hag. Því miður hafði lið KA/Þórs þá þegar misst móðinn og ekki líklegt til þess að klóra eitthvað í bakkann í síðari hálfleik þegar gengið var til búningsherbergja. Það kom líka á daginn. Eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik var munurinn orðinn tíu mörk, 20:10. Valsliðinu til hróss verður að taka fram að það hélt fullum dampi til leiksloka, slakaði aldrei á klónni þótt helstu kempur liðsins væri kallaðar af leikvelli í skiptum fyrir aðrar sem fá oftast nær færri tækifæri.

Valsliðið tók leikinn föstum tökum strax frá upphafi vitandi það að lið KA/Þórs getur svo sannarlega verið skeinuhætt. Í síðustu viku fengu leikmenn Fram að finna fyrir því í heimsókn sinni norðan heiða. Valsmenn ætluðu ekki að brenna sig á soðinu. Þeir léku vörn af miklum þrótti fra upphafi sem gerði að verkum að leikmönnum KA/Þórs féll fljótlega allur ketill í eld. Og væri það svo sem ekki nóg þá dró Íris Björk Símonardóttir smátt og smátt úr þann mátt sem eftir var í leikmönnum Akureyrarliðsins með framúrskarandi markvörslu að baki hinni frábæru vörn Vals.

Eftir æði misjafna leiki fram til þessa í deildinni er óhætt að fullyrða að Valur lék sinn besta leik á keppnistímabilinu í gærkvöldi. Nánast allt gekk upp og það sem e.t.v. var það jákvæðasta fyrir liðið og þjálfara þess, Ágúst Þór Jóhannsson, var hversu vel sóknarleikurinn heppnaðist. Varnarleikurinn og markvarslan hefur lengst af verið í góðu lagi hjá Val á keppnistímabilinu en nú bættist sóknarleikurinn við. Það er gott veganesti fyrir Evrópuleikina tvo um komandi helgi og ekki síður fyrir viðureignina við Fram á heimavelli eftir liðlega viku í Olísdeildinni.

Sjá allt um leikina í Olís-deild kvenna í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert