Haukar eru á flugi

Ramune Pekarskyte brýst í gegnum vörn KA/Þórs.
Ramune Pekarskyte brýst í gegnum vörn KA/Þórs. Ljósmynd/Þórir

KA/Þór varð nýjasta fórnarlamb sjóðheitra Haukakvenna í Olís-deild kvenna í handbolta. Liðin mættust í KA-heimilinu í gær og unnu Haukar eftir spennuþrunginn lokakafla. Lokatölur urðu 29:27 og Haukar unnu þar með sinn fimmta leik í röð.

Leikurinn var jafn allan fyrri hálfleik og staðan var 15:13 fyrir Hauka í hálfleik. Í seinni hálfleik virtust Haukarnir ætla að stinga af og var munurinn fljótlega orðinn sex mörk, 20:14. Langt fram í hálfleikinn var bilið á milli liðanna þægilegt fyrir gestina.

Með seiglu komu heimakonur sér loks aftur inn í leikinn og voru síðustu tíu mínúturnar mjög spennandi þótt Haukar væru alltaf yfir. Á lokakaflanum náði KA/Þór að minnka muninn í eitt mark þegar innan við mínúta var eftir. Haukar héldu haus og skoruðu í lokasókn sinni en leikmenn KA/Þórs voru hársbreidd frá því að vinna boltann þegar stutt var eftir.

Mikið var um mistök í leiknum og tapaðir boltar fjölmargir. Heimakonur voru mikið í því að senda boltann út af eða beint í lúkur Haukanna. Gestirnir aftur á móti klúðruðu hverri línusendingunni á fætur annarri.

Markaskor dreifðist ágætlega en bestu menn voru klárlega Maria Ines Da Silva Pereira í Haukum og Anna Þyrí Halldórsdóttir á línunni hjá Þór/KA. Maria dró sitt lið að landi þegar þurfti mörk á lokakaflanum og Anna Þyrí var drjúg í að skora og sækja víti og brottvísanir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert