Hræðilegur leikur hjá okkur

Elías Már Halldórsson fer yfir málin með leikmönnum sínum í …
Elías Már Halldórsson fer yfir málin með leikmönnum sínum í Haukaliðinu. Ragnheiður Ragnarsdóttir stendur honum við hlið. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Frá upphafi var eins og við hefðum enga trú á að við gætum unnið leikinn,“ sagði Elías Már Halldórsson, þjálfari kvennaliðs Hauka, daufur í bragði eftir 14 marka tap liðsins, 30:16, fyrir Val í Olís-deild kvenna í handknattleik í Schenkerhöllinn á Ásvöllum í dag.

„Það er alveg sama hvar er drepið niður í leik okkar. Allt liðið var hreinlega á hælunum. Ég hef því miður enga skýringu á þessu. En í stuttu máli þá áttum við aldrei möguleika,“ sagði Elías Már en fyrir leikinn í dag hafði Hauka-liðið unnið fimm leiki í röð, allt frá því að það tapaði fyrir Val í byrjun október í fjórðu umferðinni.

Leikurinn gekk illa hjá Haukum frá upphafi. Liðið skoraði aðeins eitt mark á fyrstu tíu mínútunum og þrjú mörk á  upphafsfjórungi leiktímans. Elías Már segir að ekki hafi eingöngu sóknarleikurinn var slæmur heldur var varnarleikurinn einnig óviðunandi frá fyrstu mínútu.  „Við vorum á hælunum í vörninni, alltof langt var á milli varnarmanna og hreyfingin á þeim lítil sem engin. Þetta var bara hræðilegur leikur af okkar hálfu hvar sem lítið var,“ sagði Elías Már og bætti við að hann væri undrandi á í ljósi þess að síðustu leikir Hauka-liðsins hafa verið góðir.

„Ég var bjartsýnn fyrir leikinn en því miður var engin innistæða fyrir henni. Hugarfar leikmanna var ekki rétt og það er skýringin á að við náðum okkur aldrei á strik,“ sagði Elías Már Halldórsson, þjálfari kvennaliðs Hauka í handknattleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert