Elvar skaut Selfyssingum áfram

Elvar Örn Jónsson skoraði sigurmark Selfyssinga.
Elvar Örn Jónsson skoraði sigurmark Selfyssinga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Selfoss er komið í átta liða úrslit í Coca Cola-bikarkeppni karla í handknattleik eftir sigur gegn Fram 32:31 í æsispennandi leik sem fram fór í Fram-húsinu í Safamýri í kvöld.

Elvar Örn Jónsson skoraði sigurmark Selfyssinga úr vítakasti þegar ein og hálf mínúta var eftir. Framarar misstu boltann þegar um ein mínúta var eftir en þeir fengu síðustu sóknina en Sölvi Ólafsson markvörður Selfyssinga varði úr dauðafæri á síðustu sekúndum leiksins og Selfyssingar hrósuðu sigri. Framarar voru ekki sáttir og vildu meina að þeir hefðu átt að fá vítakast en dómarar leiksins voru ekki á sama máli.

Mörk Fram: Andri Þór Helgason 6, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 6, Valdimar Sigurðsson 5, Aron Gauti Óskarsson 4, Svavar Kári Grétarsson 3, Þorgeir Bjarki Davíðsson 2, Ægir Hrafn Jónsson 1, Þorgrímur Smári Ólafsson 1, Andri Heimir Friðriksson 1, Bjarki Lárusson 1.

Mörk Selfoss: Elvar Örn Jónsson 12, Haukur Þrastarson 6, Guðjón Baldur Ómarsson 5, Hergeir Grímsson 4, Atli Ævar Ingólfsson 3, Guðni Ingvarsson 1, Árni Steinn Steinþórsson 1.

Fjölnir vann öruggan sigur gegn Val 2 í Grafarvogi 33:21. Breki Dagsson skoraði 11 mörk fyrir Fjölni og Hafsteinn Óli Berg 6 en hjá Val 2 var Róbert Nökkvi Petersen markahæstur með 6 mörk og Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði 5.

ÍR burstaði ÍBV 2 í Eyjum 36:17.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert