„Akureyringarnir voru bara miklu betri“

Patrekur Jóhannesson og Grímur Hergeirsson.
Patrekur Jóhannesson og Grímur Hergeirsson. Ljósmynd/Sigfús Gunnar Guðmundsson

„Við erum skelfilegir í fyrri hálfleik. Ég veit ekki hvort menn hafi verið að vanmeta andstæðinginn, það gæti hafa síast eitthvað inn. Það er oft erfitt að segja svona strax eftir leik,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, eftir óvænt tap gegn Akureyri, 28:34, á Selfossi í dag.

„Elvar Örn er með 35% skotnýtingu í dag, Haukur svipað, Árni Steinn svipað. Útilínan er alveg skelfileg hjá okkur. Svo ver markmaðurinn þeirra allt og við erum ekki með klukkaðan bolta. Ég held að við höfum varið tvo í fyrri hálfleik. Hann er með 25 varða bolta og það eru 29 skot sem við klikkum á í leiknum. Við vorum að fá ágætisfæri en Akureyringarnir voru bara miklu betri. Þetta virkar kannski eins og við séum andlausir en þetta er örugglega lélegasti leikur sem við höfum spilað í nokkuð langan tíma.“

Þetta er lélegasti leikur liðsins undir þinni stjórn?

„Já, ég held að það sé óhætt að segja það og það er leiðinlegt að hann skyldi koma núna á þessum tímapunkti því við hefðum getað haldið efsta sætinu inn í fríið en svona er þetta stundum,“ sagði Patrekur í samtali við mbl.is eftir leik.

„Ef ég á að vera jákvæður, þá komumst við inn í leikinn aftur í seinni hálfleik, 22:24, og ég hélt að við værum að komast nær þeim en svo komumst við ekkert nær en það. Þeir voru bara betri. Hvort það sé eitthvað andlaust eða vitlaus taktík, ég bara veit það ekki,“ sagði Patrekur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert