Setjum ekki hausinn ofan í bringu

Júlíus Þórir Stefánsson var ekki sáttur eftir tap gegn ÍR.
Júlíus Þórir Stefánsson var ekki sáttur eftir tap gegn ÍR. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Þetta var það,“ viðurkenndi Júlíus Þórir Stefánsson, leikmaður Aftureldingar, aðspurður hvort 25:31-tap fyrir ÍR hafi verið stórt skref aftur á bak miðað við síðustu leiki. Liðin mættust í dag í lokaleik ársins í Olísdeildinni í handbolta. 

„ÍR-ingar eru sterkir og sterkari en taflan lætur þá líta út fyrir að vera. Við vorum að mæta góðu liði en við vorum ekki tilbúnir og þá var okkur refsað.“

Brynjar Vignir Sigurjónsson og Björgvin Franz Björgvinsson voru markmenn Aftureldingar í leiknum vegna fjarveru tveggja aðalmarkmanna liðsins. Júlíus var sáttur við þeirra frammistöðu, en ekki sóknarleikinn. 

„Við vorum að skjóta illa og vorum að taka lélegar ákvarðanir í sókninni. Það er ekki hægt að kvarta yfir vörninni og ungu strákarnir í markinu stóðu sig vel. Við vorum hins vegar mjög lélegir í sókninni.“

Afturelding missti af fínu tækifæri til að nálgast efstu lið deildarinnar, en þess í stað eru þrjú stig í 3. og 4. sætið. 

„Við ætlum okkur að vera í þessari toppbaráttu og núna eru þetta þrjú stig í næsta lið. Það er ekki nógu gott en við erum ekki að fara að setja hausinn ofan í bringu út af þessum leik. Við höfum verið að spila vel, en það kom hökt í þetta núna. Við verðum að laga það í jólafríinu,“ sagði Júlíus Þórir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert