Handbolti snýst um markvörslu og vörn

Elías Már Halldórsson, þjálfari Hauka.
Elías Már Halldórsson, þjálfari Hauka. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er fyrst og fremst svekktur. Mér fannst við eiga að gera betur hérna í kvöld og við hefðum hæglega getað unnið þennan leik,“ sagði Elías Már Halldórsson, þjálfari Hauka, í samtali við mbl.is eftir 31:30-tap liðsins gegn Fram í 11. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik á Ásvöllum í kvöld.

„Við áttum töluvert inni varnarlega í kvöld og því miður fengum við ekki þann varnarleik og þá markvörslu sem við hefðum viljað gegn sterku liði Fram. Að fá á sig 31 mark á heimavelli er allt of mikið og það fór með leikinn. Varnarlega vorum við mjög slakar í hornunum og við réðum illa við Þóreyju Rósu. Að sama skapi vorum við að spila við frábært lið og það vantaði ekki mikið upp á hjá okkur og það svekkir mig mest. Við hefðum þurft aðeins fleiri varða bolta og aðeins betri varnarleik og þá hefðum við tekið þennan leik en svona er þetta stundum í þessum blessaða handbolta.“

Ástríður Glódís Gísladóttir kom inn í mark Hauka í upphafi síðari hálfleiks fyrir Sögu Líf Gísladóttur. Ástríður varði ekki skot á þeim tíu mínútum sem hún spilaði og viðurkennir Elías að það voru ef til vill ákveðin mistök að taka Sögu af velli sem hafði varið sex skot í fyrri hálfleik.

„Við ákváðum að gera þetta svona og við verðum auðvitað bara að standa og falla með því. Mistök og ekki mistök, handbolti er bara vörn og markvarsla og ef þú færð bara örlítið af hvoru er erfitt að vinna jafn gott lið og Fram,“ sagði Elías Már í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert