Mjög erfið en líka falleg stund

Sandra Erlingsdóttir í leik með Val.
Sandra Erlingsdóttir í leik með Val. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Þetta var mjög flott. Það var langt síðan síðasti leikur var og maður var smá stressaður fyrir leikinn,“ sagði Sandra Erlingsdóttir, leikmaður Vals, eftir sannfærandi 23:16-sigur á ÍBV í Olísdeildinni í handbolta í kvöld. Með sigrinum náði Valur tveggja stiga forskoti á toppi deildarinnar. 

Valskonur náðu átta marka forystu í fyrri hálfleik, en ÍBV minnkaði muninn í tvö mörk snemma í seinni hálfleik. Eftir það náði Valur aftur undirtökunum. 

„Þetta virkaði vel í sókninni og sérstaklega til að byrja með. Við leystum vörnina þeirra mjög vel. Það kom smá hik seinni partinn af fyrri hálfleik og aðeins í byrjun á seinni hálfleik en svo vorum við með þær.

Mér fannst við alltaf vera með leikinn í höndunum, en svo misstum við þetta niður þegar þær breyttu í 6-0 vörn. Við vorum hins vegar búnar að byggja upp góða forystu svo ég var róleg allan leikinn.“

Sandra er uppalin í Vestmannaeyjum og hefur stærstan hluta ferilsins leikið með ÍBV. Hún segir furðulegt að mæta ÍBV og sérstaklega þegar samfélagið í Vestmannaeyjum syrgir Kolbein Aron Arnarson, sem var bráðkvaddur á aðfangadag. Kolbeinn lék sem markmaður hjá karlaliði ÍBV. 

„Það verður alltaf skrítið og sérstaklega núna út af Kolla. Hann var góður vinur okkar allra og bestu vinkonur mínar eru í ÍBV. Ég veit hvernig samfélagið í Vestmannaeyjum hefur það og það er ekki gaman að vita af því. Ég vil frekar vera með vinkonunum í ÍBV núna en að spila á móti þeim.“

Fyrir leik færði Sandra aðstoðarþjálfara ÍBV, Sigurði Bragasyni, blómvönd til að minnast Kolbeins. 

„Þetta var mjög erfitt og ég vissi að þetta yrði erfitt, en að sama skapi var þetta mjög falleg stund sem ég vildi ekki sleppa. Siggi er náinn frændi minn og ég veit honum þótti mjög vænt um Kolla,“ sagði Sandra Erlingsdóttir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert