Haukarnir sluppu með tvö stig frá Akureyri

Adam Haukur Baumruk, Haukum, sækir að marki Akureyrar í fyrri …
Adam Haukur Baumruk, Haukum, sækir að marki Akureyrar í fyrri leik liðanna. mbl.is/Hari

Akureyri og Haukar öttu kappi í 14. umferð Olís-deildarinnar í handbolta karla í dag. Leikurinn var frumraun Geirs Sveinssonar en hann tók við þjálfun á liði Akureyrar fyrir mánuði. Síðan þá hefur verið hlé á deildinni og menn voru spenntir að sjá Akureyri koma til leiks.

Byrjunin ver ekki beysin hjá Geir og hans mönnum því áður en varði voru Haukar komnir í 3:0. Smám saman tóku Akureyringar sig saman í andlitinu og um miðjan hálfleikinn komust þeir yfir í 6:5. Síðan var jafnt lengi vel en Haukarnir sigu aftur fram úr og leiddu 16:13 í hálfleik. Mestu munaði um öflugan leik Daníels Þórs Ingasonar sem virtist geta skorað þegar Haukar þurftu mark.

Í seinni hálfleik virtust Haukar ætla að sigla nokkuð þægilega í gegnum leikinn og komust þeir fljótlega í fimm marka forystu. Heimamenn þéttu þá vörn sína og söxuðu jafnt og þétt á Haukana. Á endanum komust Akureyringar yfir og síðustu tíu mínúturnar var allt í járnum. Eftir mikið hnoð, spennu og árekstra kreistu Haukarnir fram eins marks sigur 27:26.

Mikið gekk á á lokamínútunum og voru bæði lið í tómu basli með sóknarleik sinn. Nokkrir dómar féllu sem hægt er að rökræða um og voru eiginlega allir ósáttir á þessum kafla. Daníel Þór Ingason skoraði sigurmark Hauka í lokasókn þeirra en Akureyringar klúðruðu síðustu sókn sinni þrátt fyrir að vera með með auka sóknarmann. Markvarsla Andra Sigmarssonar Scheving hjá Haukum skipti miklu máli á lokametrunum.

Haukarnir eru á toppnum sem stendur en Akureyri er enn í 10. sæti.

Akureyri 26:27 Haukar opna loka
60. mín. Gunnar Valdimar Johnsen (Akureyri) skýtur yfir Fínasta færi en skotið var ekki nógu gott.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert