Aron samdi við Svíana

Aron Dagur Pálsson í leik með Stjörnunni.
Aron Dagur Pálsson í leik með Stjörnunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aron Dagur Pálsson handknattleiksmaður úr Stjörnunni hefur gengið frá tveggja ára samningi við sænska úrvalsdeildarfélagið Alingsås en hann tekur gildi frá og með næsta sumri. Þetta kemur fram á vef félagsins.

Aron er 22 ára gamall og tæpir tveir metrar á hæð en hann leikur sem skytta eða miðjumaður og lék áður með Gróttu.

„Ég er virkilega ánægður með að samningurinn sé frágenginn og ég hlakka mikið til að koma til Alingsås. Mér leist mjög vel á mig þegar ég heimsótti félagið og bæinn og þetta lítur út fyrir að vera mjög gott skref fyrir mig til að taka framförum sem handboltamaður,“ segir Aron á vef Alingsås.

„Ég var kominn með góða mynd af honum og fín meðmæli frá mörgum stöðum og sú mynd varð enn betri þegar hann heimsótti okkur. Hann er fjölhæfur leikmaður með góðan leikskilning og leggur jafnframt mjög hart að sér. Hann er gott púsl í uppbyggingu okkar fyrir næstu tímabil,“ segir Mikael Franzén, þjálfari Alingsås.

„Við erum virkilega ánægðir með að hafa fengið Aron, sem var mjög ofarlega á okkar óskalista. Virkilega duglegur og fjölhæfur leikmaður sem hefur svigrúm fyrir góðar framfarir hjá okkur,“ segir Christer Mårtensson, formaður Alingsås.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert