Stórleikur Bjarka dugði ekki til

Bjarki Már Elísson átti góðan leik.
Bjarki Már Elísson átti góðan leik. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarki Már Elísson var markahæstur hjá Füchse Berlin er liðið varð að sætta sig við 29:33-tap á heimavelli fyrir Göppingen í þýsku 1. deildinni í handbolta í kvöld. Bjarki skoraði átta mörk, en bæði lið eru í baráttu um sæti í Evrópukeppni. Füchse Berlin er í sjötta sæti með 30 stig, eins og Melsungen, sem er í sætinu fyrir ofan, sem gefur þátttökurétt í EHF-bikarnum. 

Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar unnu góðan 30:27-sigur á Stuttgart á útivelli. Sænski landsliðsmaðurinn Nicklas Ekberg var markahæstur hjá Kiel með sjö mörk. Gísli Þorgeir Kristjánsson lék ekki með Kiel vegna meiðsla. Liðið er í öðru sæti með 44 stig, fjórum stigum á eftir Flensburg. 

Flensburg átti ekki í miklum vandræðum með að vinna lærisveina Hannesar Jóns Jónssonar í Bietigheim, 32:22. Flensburg náði snemma stóru forskoti og var Bietigheim ekki líklegt til að jafna eftir það. Lærisveinar Hannesar eru í 17. sæti, sem er fallsæti, með aðeins átta stig. 

Loks gerðu lærisveinar Aðalsteins Eyjólfssonar í Erlingen 25:25-jafntefli við Hannover Burgdorf á heimavelli. Nico Büdel skoraði sjö mörk fyrir Erlingen og var markahæstur. Erlangen er í níunda sæti deildarinnar með 22 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert