Ansi langt síðan ég átti svona leik

Íslandsmeistarar ÍBV eru komnir 1:0-yfir í einvígi sínu gegn FH …
Íslandsmeistarar ÍBV eru komnir 1:0-yfir í einvígi sínu gegn FH í átta liða úrslitum Íslandsmótsins. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Ég er fyrst og fremst ánægður með þennan sigur og það var mikilvægt fyrir okkur að byrja á sigri, sagði Björn Viðar Björnsson,“ markmaður ÍBV, í samtali við mbl.is eftir 28:23-sigur liðsins gegn FH í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik í Kaplakrika í dag.

„Það er orðið ansi langt síðan ég átti svona góðan leik, ég get alveg viðurkennt það. Í handboltanum virkar það samt oft þannig að markvarslan helst í hendur við varnarleikinn og við spiluðum frábæra vörn í dag. Þegar að við erum heitir sóknarlega í þokkabót þá er gríðarlega erfitt að eiga við okkur og það reyndist raunin í dag.“

Björn Viðar átti stórleik í marki ÍBV og varði 21 skot, þar af þrjú vítaköst, en hann segist hafa reynt að halda ró sinni allan leikinn.

„Ég undirbjó mig ekkert öðruvísi fyrir leikinn en aðrir leikmenn liðsins. Við vorum að sjálfsögðu búnir að fara vel yfir FH-ingana en ætli ég hafi ekki verið aðeins rólegir í dag en ég er vanalega. Maður er orðinn hundgamall í þessum fræðum en það er oft erfitt að gíra sig upp í rétt spennustig en það gekk í dag.“

ÍBV er í lykilstöðu fyrir annan leik liðanna sem fer fram í Eyjum, 22. apríl en Eyjamenn leiða í einvíginu, 1:0.

„Við vitum að við getum unnið FH en við vitum það líka að við getum vel tapað fyrir þeim. Þeir eru með hörkulið og frábæran þjálfara þannig að hrós á okkur fyrir þennan sigur,“ sagði Björn Viðar í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert