Botninum náð

Einar Rafn Eiðsson, fyrirliði FH, var í hálfgerðu sjokki eftir …
Einar Rafn Eiðsson, fyrirliði FH, var í hálfgerðu sjokki eftir tap liðsins gegn ÍBV í Kaplakrika í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég veit ekki hvar ég á að byrja og ég held það sé óhætt að segja að botninum sé náð,“ sagði Einar Rafn Eiðsson, fyrirliði FH, í samtali við mbl.is eftir 28:23-tap liðsins gegn ÍBV í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik í Kaplakrika í dag.

„Við vorum að spila okkur í fín færi mest allan leikinn en gátum ekki skorað. Varnarlega reyndum við að breyta til en það gekk ekkert upp hjá okkur og þetta var í einu orði sagt rosalegt. Ég sjálfur skaut á alla staði sem hægt var að skjóta á í markinu en boltinn bara fór ekki inn en hrós á Bjössa, þetta var klárlega leikurinn hans.“

Staðan að loknum fyrri hálfleik var 13:11, ÍBV í vil, en Hafnfirðingar áttu skelfilegan leikkafla um miðjan seinni hálfleikinn þar sem ÍBV náði sjö marka forskoti.

„Við förum í 5-1 vörn í seinni hálfleik og svo 3-2-1 og það er alltaf einhver einn sem gleymir sér. Ef ekki þá kom bara einhver tíu metra sending inn á Kára á línunni. Það vantaði gríðarlega mikið upp á hjá okkur í dag, bæði sóknarlega og varnarlega.“

Einar viðurkennir að hann hafi verið sleginn eftir tapið en Hafnfirðingar áttu hreint úr sagt afleitan leik í síðari hálfleik.

„Ég get ekki sagt að ég hafi átt von á þessum úrslitum fyrirfram en þetta getur allavega ekki versnað. Núna er það undir okkur komið að spyrna okkur frá botninum,“ sagði Einar Rafn í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert