Gaman að fá alvöru leiki í byrjun tímabilsins

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka.
Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Eftir tveggja ára hlé taka Haukar upp þráðinn í Evrópukeppninni í handknattleik en Haukarnir mæta tékkneska meistaraliðinu Talant Plzen í 1. umferðinni.

Talant Plzen fagnaði tékkneska meistaratitlinum í vor eftir að hafa unnið deildarkeppnina en Haukarnir urðu deildarmeistarar í vetur en töpuðu fyrir Selfyssingum í úrslitaeinvíginu um meistaratitilinn.

„Við fyrstu sýn þá sýnist mér á öllu að okkar bíði mjög skemmtilegt verkefni. Tékkland eins og Ísland er ekki með lið í Meistaradeildinni svo þetta er sterkasta lið Tékka sem við mætum. Ég er aðeins búinn að heyra í þeim feðgum Peter Baumruk og Adam Hauki og þeir vilja meina að þetta sé mjög sterkt lið og verði 50/50 einvígi,“ sagði Gunnar Magnússon þjálfari Hauka við mbl.is.

Gunnar segir að vinur Peters Baumruks er þjálfari Talant Plzen en Baumruk lék á árum áður með landsliði Tékkóslóvakíu og var einn besti handknattleiksmaður þjóðarinnar en sonur hans, Adam Haukur, leikur stórt hlutverk með Haukaliðinu.

„Það er alveg ljóst að þetta verða alvöruleikir og gaman að fá alvöru leiki í upphaf tímabils. Ég get ekki sagt að það hafi verið neinn draumadráttur að mæta liði frá Ísrael ef við förum áfram úr fyrstu umferðinni en það er bara seinna tíma mál. Við erum glaðir að vera komnir aftur í Evrópukeppnina eftir tveggja ára hlé og vonandi tekst okkur að slá Tékkana úr leik,“ sagði Gunnar.

Fyrri leikur liðanna fer fram í Schenker-höllinni 7. eða 8. september og síðari leikurinn verður í Tékklandi viku síðar.

mbl.is