Erfiðir andstæðingar bíða í sextán liða úrslitum

Elliði Snær Viðarsson skoraði þrjú mörk fyrir íslenska liðið gegn ...
Elliði Snær Viðarsson skoraði þrjú mörk fyrir íslenska liðið gegn Þýskalandi. Ljósmynd/IHF

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik, skipað leikmönnum 21 árs og yngri, lýkur keppni í 4. sæti D-riðils á HM á Spáni eftir 26:17-tap fyrir Þýskalandi í Pontevedra í lokaleik sínum i riðlinum í dag. Þrátt fyrir tapið fer Ísland áfram í sextán liða úrslit keppninnar en þetta var annar tapleikur liðsins á mótinu.

Jafnræði var með liðunum til að byrja með en eftir tíu mínútna leik voru Þjóðverjar komnir með þriggja marka forskot. Íslenska liðið fór illa með nokkur dauðafæri og Þjóðverjar gengu á lagið og var munurinn á liðunum orðinn fimm mörk eftir fimmtán mínútna leik. Varnarleikur Íslands var lítill sem enginn og þá var sóknarleikurinn hægur og staður og Þjóðverjar leiddu af miklu öryggi í hálfleik, 14:8.

Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn ágætlega, sóknarlega, en áfram hélt varnarleikurinn að leka inn mörkum. Íslenska liðinu gekk því illa að brúa bilið á þýska liðið og var munurinn áfram átta mörk þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka. Þá tóku Þjóðverjar aftur öll völd á vellinum og leiddu með tíu mörkum þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Íslenska liðinu tókst að minnka muninn í níu mörk á lokasekúndunum en lengra komst íslenska liðið ekki.

Darri Aronsson var markahæstur í íslenska liðinu með fjögur mörk og Elliði Snær Viðarsson skoraði þrjú mörk. Bjarni Ófeigur Valdimarsson og Gabríel Martinez tvö mörk hvor. Þá varði Andri Sigmarsson í marki Íslands 14 skot en ekki er enn þá ljóst hverjir verða mótherjar íslenska liðsins í sextán liða úrslitum en það mun skýrast síðar í kvöld þegar riðlakeppninni lýkur. Líklegasti andstæðingur liðsins er þó Króatía og þá gæti liðið einnig mætt Portúgal eða Brasilíu.

mbl.is