Íslensku strákarnir í áttunda sæti á HM

Blær Hinriksson í háloftunum á mótinu.
Blær Hinriksson í háloftunum á mótinu. Ljósmynd/IHF

Íslenska karlalandsliðið í handbolta skipað leikmönnum 19 ára og yngri hafnaði í áttunda sæti á HM í Norður-Makedóníu. Ísland mátti þola 26:30-tap fyrir Spánverjum í leiknum um sjöunda sætið í dag. 

Íslenska liðið byrjaði vel og komst í 5:2, en þá skoruðu Spánverjar tíu af næstu ellefu mörkunum og komust í 12:6. Eftir það minnkaði Ísland muninn í tvö mörk, en nær komust íslensku strákarnir ekki. 

Dagur Gautason og Arnór Snær Óskarsson skoruðu fimm mörk hvor fyrir íslenska liðið og Einar Örn Sindrason og Eiríkur Guðni Þórarinsson gerðu fjögur mörk. 

Íslenska liðið lék níu leiki á mótinu og vann fjóra en tapaði fimm, þar af síðustu þremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert