Geir Sveinsson tekinn við Nordhorn

Geir Sveinsson.
Geir Sveinsson. mbl.is/Hari

Geir Sveinsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari og landsliðsfyrirliði, er tekinn við þýska liðinu HSG Nordhorn sem leikur í efstu deild handboltans þar í landi. 

Þýska félagið greinir frá þessu á heimasíðu sinni og þar kemur fram að Geir geri tveggja ára samning við Nordhorn. Geir er ekki ókunnur þýska handboltanum en hann stýrði Magdeburg frá 2014 - 2015. Auk þess lék hann með Wuppertal í Þýskalandi á leikmannaferli sínum. 

Geir stýrði síðast Akureyri í úrvalsdeildinni hérlendis síðasta vetur. Hér heima hefur hann einnig þjálfað Val og Gróttu auk karlalandsliðsins og U-21árs landsliðsins. Þá hefur hann einnig stýrt Bregenz í Austurríki. 

Geir er 55 ára og lék á sínum tíma 340 A-landsleiki fyrir Ísland sem þá var met. 

Nordhorn er nýliði í þýsku 1. deildinni og tekur á móti Bergischer í fyrsta leik tímabilsins á fimmtudagskvöldið kemur en með Bergischer leika Arnór Þór Gunnarsson og Ragnar Jóhannsson. Þjálfari liðsins hætti störfum á dögunum vegna veikinda og Rúnar Sigtryggsson þjálfari Stjörnunnar hafnaði þá boði Nordhorn um að taka við liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert