Öllum mínum gildum í lífinu ógnað

Hafdís Renötudóttir ætlar sér stóra hluti.
Hafdís Renötudóttir ætlar sér stóra hluti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hafdís Renötudóttir, 22 ára landsliðsmarkmaður í handbolta, skrifaði í dag undir tveggja ára samning við uppeldisfélag sitt Fram. Hafdís hefur einnig leikið með Stjörnunni, SönderjyskE í Danmörku og Boden í Svíþjóð. Hún samdi við félag í Póllandi í sumar, en rifti samningi sínum við félagið og hélt heim á leið. 

„Ég fór til Póllands og byrjaði undirbúningstímabilið 10. júlí. Æfingarnar gengu ágætlega og ég komst í mjög gott form, en málið var það að aðstæðurnar í Póllandi voru óboðlegar. Ég var líka slæm í öxlinni og rifti því samningi mínum við félagið,“ sagði Hafdís í samtali við mbl.is.

En að hvaða leyti voru aðstæðurnar óboðlegar?

„Aðstæður voru óboðlegar á þann hátt að öllum þeim gildum sem ég fer eftir í lífinu var ógnað. Þau gildi sem ég fer eftir voru ekki fyrir hendi í Póllandi," sagði Hafdís, en vildi annars ekki fara nánar út í aðstæðurnar í Póllandi.

Ætlar sér að verða sú besta í heimi

Hafdís fékk fleiri tilboð að utan en ákvað að halda heim á leið. Hún segir það aðeins tímabundið og ætlar markmaðurinn sér stóra hluti í framtíðinni, meðal annars að verða sú besta í heimi. 

Hafdís Renötudóttir í leik með Boden í Svíþjóð.
Hafdís Renötudóttir í leik með Boden í Svíþjóð. ljósmynd/svenskhandboll.se/

„Ég fékk tilboð að utan fyrir þetta tímabil, en ég lenti illa í því úti í Póllandi og ég þurfti að koma heim. Atvinnuferillinn minn er alls ekki búinn. Ég ætla mér að verða besti markmaður í heimi og halda áfram að vinna að því markmiði. Þá þarf ég líka að spila úti. Það var hins vegar ekki þess virði að vera í Póllandi í tvö ár. Ef manni líður illa, þá er það ekki þess virði.“

Hafdís er spennt fyrir komandi tímabili og að taka slaginn með uppeldisfélaginu. Flestir spá hörðum slag á milli Fram og Vals um Íslandsmeistaratitilinn. Hafdís hefur mikla trú á Framliðinu. 

„Það verður að sjálfsögðu gríðarleg samkeppni. Þetta eru tvö frábær lið, Fram og Valur. Það eru fleiri sterk lið í deildinni. Ég hef mikla trú á liðsheildinni í Fram og ég held við höfum það sem þarf til að taka alla þrjá titlana. Þetta er mitt uppeldisfélag og Ragnheiður Júlíusdóttir er besta vinkona mín. Þetta er frábært lið og ég elska þessar stelpur. Ég get ekki beðið eftir því að fara á æfingu með þeim, tala íslensku og vera í nánd við þær,“ sagði Hafdís. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert