Deildarmeistararnir byrjuðu á sigri

Atli Már Báruson var atkvæðamikill í liði Hauka í kvöld …
Atli Már Báruson var atkvæðamikill í liði Hauka í kvöld og skoraði sex mörk. mbl.is/Kristinn Magnússon

Deildarmeistarar Hauka byrjuðu úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildina, á sigri þegar liðið fékk nýliða HK í heimsókn á Ásvelli í fyrstu umferð deildarinnar í kvöld. Leiknum lauk með fjögurra marka sigri Hauka, 28:24.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og höfðu HK-ingar yfirhöndina framan af leik og náðu mest tveggja marka forskoti í fyrri hálfleik. Haukar voru hins vegar sterkari undir lok fyrri hálfleiks og var staðan jöfn í hálfleik, 13:13.

Hafnfirðingar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og náðu sex marka forskoti eftir 40. mínútna leik. Það forskot létu deildarmeistararnir aldrei af hendi og þeir fögnuðu þægilegum sigri í leikslok.

Atli Már Báruson var atkvæðamestur í liði Hauka með sex mörk og Ólafur Ægir Ólafsson skoraði fimm. Hjá HK var Ásmundur Atlason markahæstur með níu mörk og Blær Hinriksson skoraði níu mörk.

Grétar Ari Guðjónsson átti mjög góðan leik í marki Hauka og varði 14 skot og þá stóð Davíð Svansson sig einnig vel í marki HK með 13 skot varin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert