Stefnan er að fara út næsta sumar

Haukur Þrastarson
Haukur Þrastarson mbl.is/Hari

Það er unun að horfa á hinn 18 ára gamla Hauk Þrastarson spila handbolta en strákurinn sýndi hversu góður hann er orðinn þegar Íslandsmeistarar Selfyssinga höfðu betur gegn bikarmeisturum FH 32:30 í 1. umferð Olís-deildar karla í handknattleik í Kaplakrika í kvöld.

Haukur, sem þarf nú að taka enn meira af skarið eftir að Elvar Örn Jónsson fór í atvinnumennsku til danska liðsins Skjern í sumar, lék FH-ingana grátt í leiknum í kvöld. Hann skoraði níu mörk í öllum regnbogans litum og mataði hvað eftir annað liðsfélaga sína og ekki síst línumanninn Guðna Ingvarsson.

„Það var flott að byrja mótið með svona góðum sigri á heimavelli FH-inga. FH er með hörkulið og við töpuðum fyrir þeim í Meistarakeppninni í síðustu viku. Við náðum að svara fyrir það tap í kvöld. Við náðum góðu forskoti í fyrri hálfleik þar sem við spiluðum hrikalega vel. Við misstum aðeins einbeitinguna og sérstaklega í vörninni þegar leið á seinni hálfleikinn og við hleyptum FH-ingunum inn í leikinn. Það fór ekkert um mig þegar FH jafnaði. Við héldum ró okkar og lönduðum flottum sigri,“ sagði Haukur eftir leikinn.

Veisla að fá að spila með þeim báðum

„Ég veit að það mæðir meira á mér núna þegar Elvar er farinn en það voru yngri menn sem sýndu sig vel í kvöld og Guðni var frábær. Við erum með tvo frábæra línumenn og þeir bakka hvor annan upp. Það er veisla að fá að spila með þeim báðum. Mér fannst allt liðið standa sig virkilega vel og markverðirnir voru flottir. Það verður áfram gaman á Selfossi í vetur. Við sjáum að við getum ennþá eitthvað,“ sagði Haukur.

Haukur hefur verið undir smásjá margra erlendra liða sem þarf ekki að koma neinum á óvart enda er Haukur einn af betri leikmönnum heims í þessum aldursflokki leyfi ég mér að segja. Haukur var í Póllandi á dögunum þar sem hann skoðaði aðstæður hjá pólska liðinu Kielce og ræddi þar við forráðamenn félagsins.

„Við erum bara að skoða málin og það er ekkert komið á hreint. Ég mun spila með Selfossi í vetur en stefnan er að fara út næsta sumar,“ sagði Haukur við mbl.is.

mbl.is